Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, segir breiðfylkingu stéttarfélaga vera sorgmædda yfir því að ekki hafi náðst saman með Samtökum atvinnulífsins.
„Ég er algerlega orðlaus yfir Samtökum atvinnulífsins í dag. Ég held að þetta ágæta fólk þurfi að setjast niður og spyrja sjálft sig hvernig það geti ætlast til þess að íslenskt launafólk axli ábyrgð á allt og öllu í íslensku samfélagi. Við getum ekki borið ábyrgð á öðrum hækkunum en þeim sem við semjum um sjálf. Grunnforsenda þess að hægt sé að setjast aftur að borði er að SA falli frá kröfu sinni.“
Vilhjálmur segir verkalýðshreyfinguna hafa boðið SA á fyrsta ári hækkun sem hafi verið 65% lægri hækkun á kauptaxta en samið var um í desember í fyrra. Þá hafi verið samið um hámarksþak á launahækkunum sem var 66 þúsund krónur.
Í tillögunum nú hafi verið gert ráð fyrir að öll laun hækkuðu um 26 þúsund krónur. Hann segir það 154% minna en samið hafi verið um í desember 2022.
„Þetta sýnir svo ekki sé um villst þann gríðarlega samningsvilja sem verkalýðshreyfingin hefur sýnt í þessu verkefni. Það er okkur því hulin ráðgáta hvernig Samtök atvinnulífsins gátu komist að þessari niðurstöðu og fært okkur þannig út af þessum teinum sem við höfum verið á, sem byggst hefur á jákvæðni og góðum anda.“
Vilhjálmur segist líka hugsi yfir því að verkalýðshreyfingin hafi sett hugmyndir sínar um krónutöluhækkun fram 28. desember. Þá hafi menn einnig náð saman um það að senda út sameiginlega yfirlýsingu þar sem meðal annars kom fram að gætt yrði að því að launaskrið yrði ekki of mikið. Vilhjálmur telur þessa yfirlýsingu hafa verið einstaka í sögunni.
„Því er ég hugsi yfir því að hvers vegna þær hógværu tölur sem þau sáu frá okkur strax 28. desember hafi ekki verið ávarpað strax. Hvers vegna er það skoðað miklu seinna og gerð krafa á okkur að draga þær niður um einn þriðja?“
Vilhjálmur bætir við:
„Ég hef aldrei séð jafn faglega unnið að kjarasamningsgerð eins og núna, bæði af sérfræðingum okkar og þeirra. Þá kemur fram að á árunum 1997-2022 er meðalkostnaðarmat íslenskra kjarasamninga um 3,8% Þetta er nákvæmlega það sama prósentuhækkun og samið er um í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við. Samt hefur dunið á íslenskri verkalýðshreyfingu í gegnum árin hversu óábyrg hún sé í kröfum sínum.“
Hann segir að lokum:
„Ég biðla til SA að setja lestina aftur upp á teinana, þannig að við náum að sigla henni á endastöð.“