Ástandið í Grindavík er hræðilegt

Sigurður Kári Kristjánsson, stjórnarformaður Náttúruhamfaratryggingar Íslands (NTÍ) segir stöðuna í Grindavík grafalvarlega og að endurmeta þurfi þær eignir í bænum sem ekki hafa nú þegar verið dæmdar gjörónýtar. Sem stendur er ekki hægt að hleypa matsmönnum inn í bæinn.

Sigurður Kári er gestur í nýjasta þætti Spursmála þar sem hann ræðir þessa stöðu en ljóst er að NTÍ mun þurfa að greiða út tug eða tugi milljarða króna til fasteignaeigenda í Grindavík sem orðið hafa fyrir gífurlegu tjóni.

Stórar sprungur hafa myndast í Grindavíkurbæ eftir harða jarð- skjálfta …
Stórar sprungur hafa myndast í Grindavíkurbæ eftir harða jarð- skjálfta og kvikugang sem myndaðist undir bænum. Í jarðhræringum á sunnudag gliðnaði bærinn um heilan metra, til viðbótar við alla gliðnunina sem áður hafði orðið. Grindavík Gríðarlegar skemmdir hafa orðið á mannvirkjum í bænum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bærinn allur krosssprunginn

„Ástandið þarna er hræðilegt og það er verra en maður sér þegar maður mætir á staðinn. Þú sérð nefnilega ekki sprungukerfin sem eru undir yfirborði bæjarins. Þær myndir og upplýsingar sem ég hef leiða mig til þeirrar niðurstöðu að undir bænum er eitthvað sprungubelti sem segir mér það að bærinn er í raun allur krosssprunginn. Hann hristist og skelfur og nötrar og hefur ekki bara gert það um mánaðaskeið heldur hefur gert það í nokkur ár. Það hafa verið eldgos í nágrenninu og eldgosin hafa teygt sig inn fyrir bæjarmörkin. Skynsemin segir mér að það sé ákaflega erfitt að búa þarna enda hafa vísindamenn sagt það,“ segir Sigurður Kári.

„Við eigum báðir börn og ég segi fyrir sjálfan mig að ég myndi ekki treysta mér til að hleypa barninu mínu út til að leika sér þarna. Og við sjáum það bara. það hefur orðið hræðilegt slys þarna. Það varm aður sem var að vinna við að fylla upp í sprungu og hann bókstaflega hvarf og við sáum björgunarsveitarmann sem var á gangi á malbiki og hann sökk ofan í það.“

Mikilvægar ákvarðanir standa fyrir dyrum

„Þetta er ástand sem er ekki gott og þess vegna er mikilvægt að þær ákvarðanir sem ég var að tala um áðan verði teknar.“

Viðtalið við Sigurð Kára í Spursmálum má sjá og heyra í spilaranum hér fyrir neðan:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert