Bæjarstarfsmenn slegnir eftir uppákomu á mánudag

Engar barsmíðar áttu sér stað og engin líkamleg meiðsli urðu …
Engar barsmíðar áttu sér stað og engin líkamleg meiðsli urðu á fólki. mbl.is/Ómar

Karlmaður í Reykjanesbæ stökk yfir þjónustuborð í þjónustuveri Reykjanesbæjar og krafðist þess að ná tali við ákveðinn starfsmann bæjarins. Starfsmenn bæjarins voru slegnir yfir atvikinu.

Þetta segir Halldóra G. Jónsdóttir, aðstoðarmaður bæjarstjóra Reykjanesbæjar, í samtali við mbl.is.

Atvikið átti sér stað á mánudag. Að sögn Halldóru var maðurinn, sem er íslenskur, óánægður og krafðist þess að ná tali af ákveðnum bæjarstarfsmanni, sem var þó ekki við. Hann tók til þess ráðs að stökkva yfir þjónustuborðið og arkaði svo inn á aðra deild inni á bæjarskrifstofum.

Boðið upp á áfallahjálp

„Fólki var brugðið því hann var æstur,“ segir Halldóra.

Engar barsmíðar áttu sér stað og því varð enginn fyrir líkamlegum meiðslum. Starfsmenn bæjarins fylgdu manninum út en einnig var hringt á lögreglu.

Fólki var brugðið og því var boðið upp á áfallahjálp, en Halldóru er ekki kunnugt um að einhver hafi nýtt sér það. Einnig var fundað og farið yfir öryggisreglur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert