Bankarnir sennilega stikkfríir

Ekki liggur fyrir hvernig endanlegt tjón verður metið í Grindavík og segir Sigurður Kári Kristjánsson, formaður stjórnar Náttúruhamfaratryggingar Íslands (NTÍ) að það geri atburðina nú sérstaka að þeir standa í raun enn yfir. Enginn veit hvenær þeim lýkur og hvort meira tjón geti orðið að veruleika.

Hins vegar er nú þegar ljóst að NTÍ mun bera mikið tjón af völdum þeirra jarðskjálfta og eldsumbrota sem nú þegar hafa orðið. Á sama tíma hafa bankar og lífeyrissjóðir komið til móts við íbúa með lánafrystingu og öðrum aðgerðum sem miða að því að létta byrðar fólks sem býr við algjöra óvissu þessa dagana.

Sigurður Kári er gestur Spursmála og þar er hann spurður hvort líkur séu á því að bankar og lífeyrissjóðir muni lenda í því að afskrifa lán sem veitt hafa verið út á fasteignir sem hafa skemmst eða jafnvel eyðilagst í Grindavík á umliðnum mánuðum. Hann telur að þessar stofnanir eigi rétt á greiðslum af hendi þeirra sem að lögum er ætlað að bæta tjónið.

„Venjulega er það nú þannig að þegar við greiðum bætur, t.d. í tengslum við altjón þá eru áhvilandi veðskuldir greiddar upp og húseigandinn fær svo restina sem er eignarhlutdeild hans í fasteigninni.“

Af orðum hans að dæma er þó ekki að fullu ljóst hver lendingin verður og að sá möguleiki sé fyrir hendi að þessar fjármálastofnanir verði látnar axla einhverjar byrðar af hörmungunum.

„Hvort að bankastofnanir þurfi að taka á sig einhvern hluta af tjóninu er eitthvað sem er ekki á okkar hendi. Það er í rauninni samkomulag milli þeirra, lánveitendanna eða ríkisins fyrir þeirra hönd. Ég get í sjálfu sér ekki sagt um það. En ég myndi þó telja að þeir ættu rétt á að fá kröfur sínar upp greiddar eins og þær eru.“

Viðtalið við Sigurð Kára má sjá og heyra í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert