Frumvarp um lokað búsetuúrræði til umsagnar

Lagt er til að heimilt verða að vista útlendinga sem …
Lagt er til að heimilt verða að vista útlendinga sem hafa fengið endanlega synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd í lokaðri búsetu. mbl.is/Óttar

Drög að frumvarpi til laga um lokað búsetuúrræði er komið til umsagnar í Samráðsgátt.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef stjórnarráðsins.

Í frumvarpinu, sem Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra leggur fram, er lagt til að heimilt verða að vista útlendinga sem hafa fengið endanlega synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd í lokaðri búsetu.

„Með frumvarpinu er verið að hverfa frá framkvæmd gildandi laga sem kveða á um að heimilt sé að handtaka útlending í þessari stöðu og færa í gæsluvarðhald.“

Síðasta úrræði

Segir í tilkynningunni að vistun í lokaðri búsetu verði aðeins beitt sem síðasta úrræði þegar fullnægjandi mat hefur verið lagt á það og staðfest að vægari úrræði muni ekki skila árangri.

Gefnar eru upp helstu ástæður fyrir þessu frumvarpi:

  • „Ekki er talið forsvaranlegt að úrskurða útlendinga í gæsluvarðhald og vista í fangelsi til þess eins að tryggja framkvæmd ákvörðunar um að viðkomandi skuli yfirgefa landið, eins og gildandi lög gera ráð fyrir.
  • Innleiða þarf að fullu tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/115/EB um sameiginleg viðmið og skilyrði fyrir endursendingu ríkisborgara utan EES-svæðisins sem dveljast ólöglega á yfirráðasvæði aðildarríkjanna, svokallaða brottvísunartilskipun.
  • Bregðast þarf við athugasemdum eftirlitsnefndar með Schengen-samstarfinu við það fyrirkomulag gildandi laga að útlendingar í þessari stöðu séu vistaðir í fangelsi,“ segir í tilkynningunni.

Samkvæmt frumvarpinu yrði óheimilt að vista fylgdarlaus börn í lokaðri búsetu. Verður þó heimilt að vista börn í úrræðinu ef þau eru í fylgd með foreldra eða umsjónarmanni. Einnig er kveðið á um aðskilnað kynjanna í úrræðinu eins og í öðrum löndum.

„Í lokuðum búsetum annarra landa í kringum okkur eru einstæðir karlmenn almennt í einu húsnæði og konur, börn og fjölskyldur í öðru,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert