Ómar Friðriksson
Alvarleg staða er komin upp í kjaraviðræðunum eftir þá gliðnun sem kom í ljós í fyrrakvöld á milli samninganefnda breiðfylkingar ASÍ-félaga og Samtaka atvinnulífsins. Þótt viðræðunum hafi ekki verið slitið er mikil óvissa um framhaldið. Forystumenn breiðfylkingarinnar og formenn félaga ætla að funda í dag um stöðuna sem upp er komin og ráða ráðum sínum um framhaldið.
Ekki er útilokað að viðræður komist aftur af stað en af samtölum í gær má ráða að taldar eru líkur á að viðræðunum verði formlega slitið og deilunni vísað til ríkissáttasemjara, sem taki þar með að sér verkstjórn áframhaldandi viðræðna.
Aðeins eru tæpar tvær vikur til stefnu þar til samningar á almenna markaðnum renna út og eru taldar hverfandi líkur á að takast muni að ljúka endurnýjun kjarasamninga fyrir mánaðamót.
„Það mátti alveg búast við þessu. Þetta er að gliðna eingöngu vegna þess að Samtök atvinnulífsins samþykkja ekki þessa leið verkalýðshreyfingarinnar sem er mjög hógvær,“ sagði forystumaður í verkalýðshreyfingunni í gær.
Vísar hann þar til tillagna um flatar krónutöluhækkanir, þar sem félögin hafi afsalað sér öðrum hækkunum í kjarasamningum, auk þess sem krafist er viðamikilla stuðningsaðgerða stjórnvalda, sem muni að öllu samanlögðu stuðla að hraðri lækkun verðbólgu og vaxta og sé reist á nákvæmum útreikningum.
Viðbrögð SA hafi framan af verið jákvæð en svo hafi samtökin snúið við blaðinu og komið með aðrar tillögur, sem feli í sér mun minni launahækkanir.
Hægt er að nálgast umfjöllunina í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.