Beiðni um skipan rannsóknarnefndar um aðdraganda og viðbragð yfirvalda vegna Súðavíkursnjóflóðsins, var afhent forseta Alþingis í morgun. Málið hefur verið á borði stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar síðan síðasta sumar og var tillaga um skipun nefndarinnar samþykkt á fundi í gærkvöldi.
Þetta staðfestir Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður nefndarinnar, í samtali við mbl.is en Heimildin greindi fyrst frá.
Á þriðjudag voru 29 ár liðin frá því að snjófljóð féll í Súðavík í janúar 1995. Fjórtán létust í náttúruhamförunnum og er flóðið eitt það mannskæðasta sem fallið hefur á byggð á Íslandi.
Síðasta sumar sendi Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd beiðni lögmanns, fyrir hönd eftirlifenda og aðstandenda þeirra sem létust í snjóflóðinu, þar sem farið var fram á að málið yrði rannsakað af hálfu yfirvalda.
Þess ber að geta að erindið var sent í kjölfar umfjöllunar Heimildarinnar um snjóflóðið sem birtist í apríl á síðasta ári. Fóru blaðamennirnir Helgi Seljan og Aðalsteinn Kjartanson þar með ítarlegum hætti yfir atburðarásina 16. janúar 1995.
„Við höfum haft málið til umfjöllunar síðan í haust, fengið til okkar gesti, og vandað mjög alla umfjöllun um þetta mál. Það var ekki augljóst frá upphafi umfjöllunarinnar hver tillagan yrði,“ segir Þórunn í samtali við mbl.is.
„Eftir vandaða vinnu í nefndinni þá varð niðurstaðan sú að við gerðum tillögu að það yrði stofnuð rannsóknarnefnd Alþingis og sú tillaga er núna hjá forseta Alþingis.“
Aðspurð kveðst hún ekki vera með upplýsingar um hvenær tillagan verði afgreidd. Hún er þó bjartsýn á að beiðnin verði samþykkt og segir hún mikla samstöðu hafa ríkt um hana í nefndinni.