Dagbjört Guðrún Rúnarsdóttir neitar sök í manndrápsmálinu í Bátavogi.
Málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Dagbjört var viðstödd þingfestinguna í gegnum fjarfundarbúnað, en hún situr í gæsluvarðhaldi á Hólmsheiði.
Dagbjört er sökuð um að hafa orðið sambýlismanni sínum í Bátavogi að bana á heimili þeirra í september í fyrra. Eins og segir neitar hún sök.
Myndefni sem tekið var upp 22. og 23. september á síma Dagbjartar og hins látna, sýnir hana valda manninum ítrekuðum líkamsmeiðingum. Þá heyrðu nágrannar öskur í karlmanni sömu daga.
Við þingsetninguna kom fram að ákæruvaldið telji ástæðu til að skoða sakhæfi Dagbjartar þar sem hún sé mögulega haldin ranghugmyndum. Þess til stuðnings var nefnt að Dagbjört hafi talað um að hinn látni hafi verið með byssu sem var notuð við morðið á Olaf Palme, forsætisráðherra Svíþjóðar, undir höndum. Þá var einnig vísað til framburðar samfanga hennar.