Óvissa um óskemmd hús í Grindavík

Réttaróvissa er uppi um hvernig fara eigi með eignir sem standa óskemmdar í Grindavík en allir eru sammála um að séu óíbúðarhæfar. Þetta segir Sigurður Kári Kristjánsson, formaður Náttúruhamfaratryggingar Íslands en hann er gestur í nýjasta þætti Spursmála.

Þar er hann spurður út í stöðu sjóðsins sem nú á eignir upp á 55 milljarða en gæti þurft að greiða á annað hundrað milljarða króna til íbúa og fasteignaeigenda í Grindavík ef bærinn verður metinn svo hættulegur staður að fólki verði ekki vært þar. NTÍ er með endurtryggingasamninga við risastór tryggingafélög erlendis og hefur því bolmagn til þess að greiða um 100 milljarða út í tengslum við atburðinn. Verði umfang greiðslna meira mun sjóðurinn taka lán með ábyrgð frá íslenska ríkinu.

Sigurður er spurður út í hvort ekki stefni í að endurtryggingafélögin efni til ágreinings um úrlausn málsins, í ljósi þess hversu gríðarlegt umfangið er. Hvernig er leyst úr slíkum ágreiningi ef hann kemur upp?

„Það eru sömu sjónarmið og þegar maður á í öðrum ágreiningi hér á Íslandi. Samningarnir okkar eru þannig að þær reglur sem gilda um náttúruhamfaratryggingu eru þeir skilmálar sem farið er eftir. Svo höfum við samning við þessi endurtryggingafyrirtæki sem byggja á þessum skilmálum. Lögsagan samkvæmt samningnum er á Íslandi þannig að ef það kæmi upp ágreiningur þá yrði úr honum skorið fyrir íslenskum dómstólum.“

Ef Grindavík verður metinn sem  vettvangur altjóns er ljóst að Náttúruhamfaratrygging Íslands þarf að þurrausa sjóði sína og meira til. Hvernig leysir sjóðurinn úr því? Væntanlega verður hann ekki í færum til að bregðast við öðrum viðlíka eða smærri atburðum?

„Úrræðið væri að fá frekara lán með ríkisábyrgð til þess að mæta þessum skuldbindingum sínum en það er þá samtal sem sjóðurinn þyrfti að eiga við stjórnvöld um það hvernig náttúruhamfaratrygging yrði fjármögnuð til framtíðar. Þetta er auðvitað hlutur sem bæði við og stjórnvöld þurfum að skoða í samhengi. Nú er talað um það að það eigi að kaupa upp allar húseignir í Grindavík. Það er uppi krafa um þetta. Hún er alveg skiljanleg og ég hef fullan skilning á vilja þeirra sem vilja fara þá leið.“

Eldgos varð nærri Grindavík á sunnudag og eyðilagði nokkur hús …
Eldgos varð nærri Grindavík á sunnudag og eyðilagði nokkur hús í bænum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bendir Sigurður Kári hins vegar á að málið sé stærra í sniðum en svo að það sé bundið við þær hamfarir sem nú hafa orðið í Grindavík.

„Hins vegar verða menn að átta sig á því að þessum náttúruhamförum lýkur ekki endilega við þau uppkaup. Þau kunna að halda áfram og koma upp annarsstaðar, eins og í Hafnarfirði og þá þurfa menn að horfa fram í tímann og  velta fyrir sér hvernig þeir ætla sér að eiga við þá atburði sem eiga sér stað í framtíðinni. Og þetta er svona stefnumörkun sem ég held að stjórnvöld verði að fara í í dag. Draga lærdóm af þeirri stöðu sem uppi er í Grindavík og koma sér niður á það hvernig við ætlum að hafa þetta fyrirkomulag til framtíðar. Ég held að það séu mörg lönd sem öfundi okkur af því hversu gott kerfi við höfum til að eiga við tjón af völdum náttúruhamfara. Á hinn boginn er löggjöfin ekki fullkomin og það er ekki alveg ljóst hvernig á að fara með eignir fólks sem ekki eru skemmdar en standa á svæði sem allir eru sammála um að sé óíbúðarhæft.“

Viðtalið við Sigurð Kára má sjá og heyra í heild sinni hér:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert