„Raunveruleikinn er harður húsbóndi“

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, lengst til vinstri, segir kröfur um …
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, lengst til vinstri, segir kröfur um aðkomu stjórnvalda vera kostnaðarsamar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Verkefnið sem blasir við Íslendingum sem samfélag, þar á meðal ríkissjóði, hefur breyst á skömmum tíma og mikilvægt er að hafa það í huga þegar kjaraviðræður eru annars vegar, að mati Þórdísar Kolbrúnar Reykjörð Gylfadóttur fjármálaráðherra.

Viðræður breiðfylkingar stærstu stéttarfélaga og landssambanda á almennum vinnumarkaði og Samtaka atvinnulífsins virðast komnar í hnút. Spurð að loknum ríkisstjórnarfundi í gær hvort það sé ekki slæmt segir Þórdís Kolbrún afar mikilvægt að ná langtímasamningum svo lengi sem þeir eru ábyrgir og skynsamlegir.

„Aðilar vinnumarkaðarins verða að svara fyrir það að viðræðum hafi verið slitið í gær. Verkefnið fer ekkert frá þeim og þau verða að finna út úr næstu skrefum,” segir Þórdís Kolbrún.

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, á samningafundi í byrjun ársins.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, á samningafundi í byrjun ársins. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það eru mikil verðmæti í því fyrir okkur að fá stöðugleika og fyrirsjáanleika á þessu sviði samfélagsins. Við finnum það sérstaklega þegar það skortir fyrirsjáanleika og vissu á mörgum öðrum sviðum,” bætir hún við.

Hljótum að átta okkur á samhenginu

Spurð hvort hún hafi áhyggjur af stöðu mála í kjaraviðræðunum kveðst ráðherrann almennt hafa áhyggjur af því hvernig vinnumarkaðsmálum er háttað hérlendis.

„Það er til mjög mikils að vinna og það verkefni sem blasir við okkur núna sem samfélag, þar á meðal ríkissjóði sem er sameiginlegur sjóður allra landsmanna, er stórt og hefur breyst á undanförnum sólarhringum. Við hljótum öll að átta okkur á því samhengi hlutanna en það breytir því ekki að það er gríðarlega mikils virði að ná ábyrgum langtímasamningum og ábyrgð aðila sem eru í því verkefni er mjög mikil.

Ég vonast til þess að þau finni út úr því hvernig næstu skref verða tekin og óska þeim einlæglega alls hins besta í því. Ég veit að þetta er flókið en raunveruleikinn er harður húsbóndi og þetta er staðan,” svarar Þórdís Kolbrún. 

Eldgos nærri Grindavík.
Eldgos nærri Grindavík. mbl.is/Kristinn Magnússon

Laun hækkað umfram verðmæti

Hún nefnir í framhaldinu að í gegnum tíðina hafi of mikill órói verið á íslenskum vinnumarkaði. Ramminn utan um vinnumarkaðslöggjöfina sé ekki til samræmis við löggjöfina á hinum Norðurlöndunum.

„Þegar við tölum um að vilja það jákvæða og góða sem fylgir þessu ferli á Norðurlöndum þá er auðvitað liður í því að vera með löggjöf sem er sambærileg. Hér hafa laun verið hækkuð umfram þau verðmæti sem hafa verið búin til og það kann ekki góðri lukku að stýra,” greinir hún frá og segir ríkisfjármálin mikilvægan lið í því að ná niður verðbólgu og í framhaldinu vöxtum.

Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, í viðtali í byrjun …
Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, í viðtali í byrjun ársins. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Núna blasir við að það mun reyna meira á ríkissjóð út frá náttúruhamförum. Kröfur og hugmyndir um aðkomu stjórnvalda eru líka kostnaðarsamar. Við gerum okkur algjörlega grein fyrir því að aðkoma okkar verður hluti af þessu en það verður líka að gerast í réttri röð. Raunveruleikinn er eins og hann er og þessi nýja staða kallar á ákvarðanir sem hafa þegar haft áhrif á ríkissjóð og munu gera það og er algjört forgangsverkefni að ná utan um,” segir ráðherrann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert