Það bendir allt til þess að rafmagnsstrengur sem liggur í jörðu undir hrauntungunni sé orðinn skemmdur og valdi rafmagnsleysinu í Grindavík.
Þetta segir Kristinn Harðarson, framkvæmdastjóri HS Orku, í samtali við mbl.is en rafmagn fór af öllum Grindavíkurbæ á áttunda tímanum í morgun.
„Það er verið að vinna að því að greina bilunina. Það er allt í lagi í orkuverinu í Svartsengi og engin bilun þar,“ segir Kristinn. HS Orka sér um orkuverkið en HS veitur sér um dreifikerfið á svæðinu.
Hann segir að unnið verði að því í dag að finna leiðir til að koma öðrum streng í gagnið og koma rafmagni á bæinn sem allra fyrst með varaleiðum.