Óvissustigi vegna snjóflóðahættu hefur verið lýst yfir á Suðurlandi. Mikilli snjókomu og austan skafrenningi er spáð í Mýrdalnum í dag og fram í fyrramálið og er talið að í Mýrdalnum geti skapast snjóflóðahætta á þekktum stöðum.
Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Veðurstofu Íslands en þar segir einnig að ekki sé búist við að snjóflóðahætta skapist annars staðar á Suðurlandi.
„Um er að ræða viðbúnað í nokkrum húsum í dreifbýli og haft hefur verið samband við ábúendur þar. Vegfarendur eru beðnir um að sýna varúð og dvelja ekki eða leggja bílum undir bröttum hlíðum sem snúa til vesturs.
Spár gera ráð fyrir að í nótt eða snemma í fyrramálið stytti upp, dragi úr vindi og hlýni aðeins. Eftir það er búist við að dragi úr snjóflóðahættu á láglendi. Fólk á ferð til fjalla ætti þó að fara varlega fyrst um sinn þar sem óstöðugir vindflekar gætu fundist víða,“ segir ennfremur í tilkynningunni.