Strætó býður 12-17 ára ungmennum frá Grindavík að fá frítt strætókort sem gildir á höfuðborgarsvæðinu.
Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Strætó, en þar munu grindvísku ungmennin geta sótt um kortið.
Fyrir þá sem vilja nota Klapp kort þá verður hægt að fá þau í þjónustumiðstöð fyrir Grindvíkinga í Tollhúsinu við Tryggvagötu.
Haft er á eftir Jóhannesi S. Rúnarssyni, framkvæmdastjóra Strætó, að það sé „gott að geta stutt við Grindvíkinga á þessum fordæmalausu tímum“.
Stjórn Strætó tók ákvörðun um þetta í morgun og verður útfærslan á þessu í samráði við Grindavíkurbæ.