Jónas Karl Þórhallsson, íbúi í Grindavík, segir áföll síðustu daga í Grindavík hafa gjörbreytt stöðunni varðandi búsetu í bænum til frambúðar. Hann kveðst vilja sjá nýja Grindavík í Sandgerði.
Í vor verða liðin 50 ár frá því Jónas flutti til Grindavíkur frá Sandgerði en margir kannast við hann í tengslum við knattspyrnuna í Grindavík, enda var hann formaður og stjórnarmaður knattspyrnudeildarinnar í 43 ár.
Hann hætti sem formaður 2018 og var í varastjórn til 2022 og er nú í Leyfisdóm hjá KSÍ. Jónas hefur starfað hjá útgerðarfélaginu Þorbirni hf. í Grindavík í frá 1981 en það er þriðja stærsta útgerðarfélags landsins í kvóta og hélt upp á 70 ára afmæli sitt í fyrra.
„Ég er einn af þeim sem hef talað fyrir því að flytja aftur heim til Grindavíkur en eftir þetta hörmulega slys þegar maður féll ofan í sprunguna og að þetta eldgos hafi komið upp svo nálægt bænum og haft þær afleiðingar að hraun fór yfir þrjú hús í bænum þá hefur staðan gjörbreyst,“ segir Jónas í samtali við mbl.is.
Hann segir að fólki hafi brugðið við að heyra lýsingar björgunarmanna þegar þeir voru búnir að fara niður í sprunguna og sjá gímald þar niðri.
„Þegar maður heyrði þessar lýsingar og það fór að gjósa með hörmulegum afleiðingum þá staldraði maður við og ekki síst eftir að Magnús Tumi jarðfræðingur sagði á íbúafundinum í vikunni að erfitt væri að sjá að hægt væri að búa í Grindavík,“ segir Jónas.
„Allt þetta hefur breytt stöðunni og nú hugsar maður bara hvort hægt sé að flytja aftur heim. Það er kvikugangur undir Grindavík með 1.100-1.200 gráða heitri kviku sem hefur brætt bergið þar undir og þessir atburðir geta haldið áfram svo árum og áratugum skiptir. Sjómenn hlusta á veðurfræðinga og hafa borið virðingu fyrir náttúrunni og við verðum að hlusta á hvað vísindamenn segja,” segir Jónas.
Hann segir að það hafi tekið mjög á sig að fylgjast með í beinni útsendingu þegar hraunið fór að bænum og yfir þrjú hús.
„Ég ætlaði ekki að trúa þessu og maður var gráti nær en sem betur fer kom í ljós að varnargarðarnir skiluðu sínu og sönnuðu gildi sitt. Án þeirra hefði hraunið runnið langleiðina niður að höfninni,” segir Jónas.
Hann segir að samfélagið í Grindavík sé einstakt og það sé erfitt að hugsa til þess að það sundrist en nú sé kominn sá tímapunktur að fólk verði að fara að hugsa út fyrir kassann og leita að einhverri staðsetningu.
„Ég er ekki í nokkrum vafa. Ég er kannski hlutdrægur en ég tel að við eigum að reisa nýja byggð í Sandgerði. Þar er lífhöfn til staðar og mikil útgerðarsaga, mannlífið er svipað þar og í Grindavík og knattspyrnufélagið þar er lifandi og hefð fyrir körfubolta. Innviðirnir þar eru ágætir. Það er stutt á flugvöllinn og út á fengsæl mið,“ segir Jónas.
Hann segir þetta vera eitthvað sem fólk ætti að fara huga að, þó það vilji ekki heyra annað en að það ætli heim aftur.
„Ég heyri í mörgum að þeir vilji fara aftur heim en ekki í því ástandi sem er núna.”
Jónas býr einn sem stendur í Skuggahverfinu í Reykjavík. Hann segist hafa fengið inni hjá gömlum skólabróður sínum sem býr í Bandaríkjunum. Hann segir að ekki sjái á húsi sínu sem er staðsett í vesturhluta Grindavíkur þar sem landið hafi sigið talsvert.
Eins og áður segir var Jónas formaður og stjórnarmaður knattspyrnudeildar Grindavíkur í 43 ár og hann segist vilja hrósa því fólki sem hefur stýrt deildinni undanfarin ár.
„Yngri menn tóku við af mér og þeir hafa aldeilis þurft að glíma við erfið verkefni. Fyrst kom kórónuveirufaraldurinn og síðan jarðskjálftar og nokkur eldgos. Ég fórnaði 43 árum í þetta og ég verð stoltur þegar ég horfi á loftmyndir af íþróttasvæðinu okkar sem stjórnarmenn ásamt öðrum sjálfboðaliðum byggðum upp,” segir Jónas
Í tíð hans sem formaður komst Grindavík úr neðstu deild upp í þá efstu og vann sér þátttökurétt í Evrópukeppni. Hann segir að leit standi núna yfir af heimavelli fyrir knattspyrnulið bæjarins og telur hann að Sandgerðisvöllur sé besti kosturinn.