Vinna pípulagningamanna í húsum í Grindavík er hafin á nýjan leik en fresta þurfti vinnu þeirra í gær vegna veðurs.
Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, segir í samtali við mbl.is að 34 pípulagningamenn séu komnir inn í bæinn og hafi hafið störf undir eftirliti viðbragðsaðila þrátt fyrir rafmagnsleysi í bænum en rafmagn fór af öllum bænum á áttunda tímanum í morgun.
Kristinn Harðarson, framkvæmdastjóri HS Orku, sagði við mbl.is í morgun að allt benti til þess að rafmagnsstrengur sem liggur í jörðu undir hrauni sé skemmdur en vinna stendur yfir við að greina bilunina.
„Við gerum ráð fyrir að varaaflsvél frá Landsneti sem er á staðnum verði tengd og að hægt verði að koma rafmagni á bæinn. Það er lykilatriði en það er alveg ljóst að lagnakerfið í öllum bænum er mjög viðkvæmt enda liggja leiðslur undir hrauni,“ segir Úlfar.