Páll Erland, forstjóri HS Veitna, vonast til þess að hægt verði að koma rafmagni á Grindavík upp úr hádegi en rafmagnslaust hefur verið í öllum bænum frá því á áttunda tímanum í morgun.
Stofnstrengurinn frá Svartsengi til Grindavíkur fór að hluta til undir hraun í eldgosinu sem hófst á sunnudaginn en hann reyndist nothæfur eftir prófanir sem gerðar voru á honum.
„Við vorum mjög ánægðir að geta gripið til hans eftir eldgosið og komið rafmagni fljótt á bæinn. Það var vitað að á einhverjum tímapunkti myndi hann gefa sig í hitanum undir hrauninu sem hefur nú raungerst og þar með fór rafmagnið af bænum,“ segir Páll við mbl.is.
Vinnuflokkar frá HS Veitum eru komnir til Grindavíkur til að taka á móti varaaflsvél frá Landsneti og í framhaldi verður hún tengd og að sögn Páls er von á annarri varaaflsvél í dag. Þar með ætti að vera hægt að koma rafmagni á bæinn.
Páll segir að vinna sé einnig hafin við gerð loftlínu yfir hraunið til að hafa sem varalega tengingu.