Tveir voru handteknir grunaðir um sölu fíkniefna í Reykjavík og tilkynnt var um innbrot í fyrirtæki í Kópavogi.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Samviskusamur borgari kom með nýja, innpakkaða dýnu á lögreglustöðina á Hverfisgötu í óskilum en hún lá á akbraut. Eigandi er ekki enn fundinn, að er kemur fram í dagbók.
Í Reykjavík var ökumaður stöðvaður í umferðinni grunaður um akstur undir áhrifum vímuefna. Var maðurinn handtekinn en er laus að blóðsýnatöku lokinni.
Á lögreglustöð 2 sem sinnir verkefnum í Hafnarfirði, Garðabæ og Álftanesi var tilkynnt um hnupl í verslun og er málið nú til rannsóknar.
Á lögreglustöð 4, sem sinnir verkefnum í Árbæ, Grafarholti, Grafarvogi, Norðlingaholti, Mosfellsbæ, Kjósarhreppi og á Kjalarnesi, var tilkynnt um vinnuslys.