Aflétta óvissustigi vegna snjóflóðahættu

Engar tilkynningar hafa borist um snjóflóð.
Engar tilkynningar hafa borist um snjóflóð. Mbl.is/Jónas Erlendsson

Engar tilkynningar hafa borist Veðurstofu Íslands um snjóflóð í nótt. Óvissustigi vegna snjóflóðahættu í Mýrdal hefur verið aflétt.

Þetta staðfestir Heiður Þórisdóttir, sérfræðingur á snjóflóða- og skriðuvakt Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.

„Það er búið að hlýna. Það er búið að draga úr vindi þannig snjórinn hefur aðeins sjatnað. Það hefur alveg dregið úr snjóflóðahættu,“ segir Heiður, sem bendir þó á að þar sem að enn er myrkur á það eftir að koma betur í ljós hvort, og þá hvar, snjóflóð féllu í nótt.

Hún bendir þá einnig á að enn sé víða ófært. Ef fólk á svæðinu tekur eftir því að snjóflóð hefur fallið er því bent á að hafa samband við Veðurstofu Íslands.

Nýr snjór gæti sett af stað flóð 

Í tilkynningu ofanflóðavaktar Veðurstofunnar segir: „Í nótt snjóaði mikið og skóf í austanátt í Mýrdal en snjókoman er nú gengin yfir. Það dró úr vindi þegar leið á nóttina og hlýnaði. Nú er létt rigning og snjór hefur sjatnað talsvert. Talið er að verulega hafi dregið úr snjóflóðahættu í Mýrdalnum og að hætta í dreifbýli sé yfirstaðin. Óvissustigi og viðbúnaði vegna snjóflóðahættu er því aflétt.“

Þá segir að í dag sé spáð hæglætis veðri, lítilli úrkomu, hægri vestanátt og hita í kringum frostmark.

„Fólk á ferð til fjalla ætti þó að fara varlega fyrst um sinn þar sem auknar líkur eru á að fólk geti sett af stað snjóflóð í öllum þessum nýja snjó.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert