Bæjarstjórn Grindavíkur felli stóra dóminn

Það er í höndum bæjarstjórnar Grindavíkur að kveða upp úr um hvaða svæði innan Grindavíkur, ef ekki bærinn allur, telst óíbúðarhæft. Í kjölfar þess er hægt að ákveða hvernig brugðist skuli við.

Þetta er mat Sigurðar Kára Kristjánssonar, hæstaréttarlögmanns og stjórnarformanns Náttúruhamfaratryggingar Íslands.

Sigurður Kári er nýjasti gestur Spursmála, umræðuþáttar sem sendur er út á mbl.is, alla föstudaga.

Með framtíðina í höndum sér

„Það sem þarf að gera er að bæjaryfirvöld í Grindavík, sem fara með skipulagsvaldið, þau þurfa í rauninni að taka ákvörðun um hver er framtíð þessa bæjar. Hvaða svæði innan Grindavíkur teljst byggilegt og hvað telst óbyggilegt. Þetta er auðvitað stór ákvörðun, þetta er ákvörðun um framtíð bæjarins.“

Bendir hann á að ákvörðunin sé í eðli sínu skipulagsleg eðlis. Þegar hún liggi fyrir þurfi stjórnvöld að bregðast við og ákveða næstu skref. Sé matið það að bærinn sé allur óbyggilegur þá sé ljóst að Grindavíkurbær geti ekki staðið undir uppkaupum á húsnæði, þ.e. því sem telst óíbúðarhæft.

Ákvörðun stjórnmálamanna

„Þegar sú ákvörðun hefur verið tekin þá þarf að finna út úr því hvernig fjármagna á þá ákvörðun. Ef um er að ræða stórt svæði sem allir eru sammála um að sé óíbúðarhæft þá þurfa menn að komast að niðurstöðu um hver ætlar að greiða fyrir þær fasteignir sem eru innan þess svæðis að því marki sem við bætum ekki. Þetta er ákvörðunin sem þarf að taka. Við getum ekki tekið hana. Þetta er ákvörðun stjórnmálamannanna.“ 

Tjónið í Grindavík er orðið gífurlegt, bæði eftir jarðskjálfta, gliðnun …
Tjónið í Grindavík er orðið gífurlegt, bæði eftir jarðskjálfta, gliðnun jarðar og nú síðast eldgos innan bæjarmarkanna. mbl.is/Árni Sæberg

Tekist á um hver beri ábyrgðina

Spurður út í tryggingaskilmála endurtryggingafélaga, sem gætu í versta falli staðið uppi með reikning upp á 45 þúsund milljónir króna, segir Sigurður Kári að félögin reyni að takmarka ábyrgð sína. Það lúti m.a. að því hvort þau hús teljist hafa orðið fyrir náttúruhamförum sem standa lítið eða óskemmd í bænum, en ofan á hinu krosssprungna landi.

„Ég er nú lögmaður sjálfur og veit hvernig lögmenn hugsa og tryggingafélög. Menn leita ýmissa leiða til að takmarka tjón sitt og ef þeir finna eitthvað orðalag í skilmálunum sem leysir þá undan bótaábyrgð þá er það svigrúm nýtt.“

Óvissan enn mjög mikil

Er þetta mögulega ástæða þess að við höfum ekki fengið skýrari svör frá stjórnvöldum en raun ber vitni og íbúar í Grindavík eru mjög ósáttir einmitt við það, er það vegna þessarar óvissu. Eru stjórnvöld að reyna að átta sig á því hvernig þessi staða er gagnvart endurtryggingafélögunum?

„Ég held að það sé ekki ástæðan. Ég held að ástæðan sé bara sú að það er óvissa um hvað gerist í framtíðinni. Það sem þarf að gerast og það liggur alveg fyrir hver okkar skylda er til þess að bæta tjónið og við munum geta gert það hratt og vel þegar það liggur fyrir hvert tjónið raunverulega er.“

Viðtalið við Sigurð Kára má sjá og heyra í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert