Bætur vegna Eyja voru 55 milljarðar

Myndin var tekin 7. febrúar árið 1973.
Myndin var tekin 7. febrúar árið 1973. Morgunblaðið/Ólafur K. Magnússon

Fyrirséð er að ríkið þurfi að koma til móts við Grindvíkinga, nú þegar jarðhræringar og eldgos hafa valdið miklum skemmdum í bænum og skapað þá stöðu að sennilega verður Grindavík eyðibyggð um ófyrirséðan tíma. Í þessu sambandi hefur á stundum verið horft til þeirra ráðstafana sem grípa þurfti til í kjölfar Vestmannaeyjagossins sem hófst 23. janúar 1973. Strax var ljóst að grípa þyrfti til samfélagslegra ráðstafana, svo sem vegna húsnæðismála, en þegar hér var komið höfðu alls 1.349 fjölskyldur, alls um 5.000 manns, þurft að yfirgefa heimili sín og þurftu hjálp.

Kort/mbl.is

Viðlagasjóður stofnaður

Um tveimur vikum eftir að gosið hófst var Viðlagasjóður stofnaður skv. lögum frá Alþingi. Aðferðin við að tryggja fjármögnun í Viðlagasjóð var einföld; söluskattur var hækkaður og lagt á viðlagagjald á aðstöðugjaldsstofn, hvort tveggja tímabundið. Viðbótin var eyrnamerkt Eyjum. Með þessu fóru peningar fljótt að rúlla inn í sjóðinn og fyrir þá fjármuni voru keypt um 500 tilbúin einingahús frá Norðurlöndunum. Þau voru sett niður á tuttugu stöðum á landinu; fjöldi svonefndra Viðlagasjóðshúsa er til dæmis við Keilufell í Reykjavík, allmörg eru í Keflavík, Kópavogi, Þorlákshöfn og Mosfellsbæ. Við þrjár götur á Selfossi eru húsin af þessari gerðinni. Einnig keypti sjóðurinn nokkrar íbúðir í fjölbýlishúsum á höfuðborgarsvæðinu, segir Arnar Sigurmundsson sem var starfsmaður og síðar framkvæmdastjóri Viðlagasjóðs í Eyjum 1973-1977.

„Greiddar voru út tjónabætur fyrir 400 eyðilögð hús og önnur mannvirki. Þá fengum við um 1.000 mál þar sem greiða þurfi út bætur vegna skemmdra húsa og þess háttar. Einnig komu til svonefndar fyrirtækjabætur auk þess sem eigendur um 800 bíla fengu tjón bætt. Í þetta fóru alls um um 30 milljarðar króna,“ segir Arnar Sigurmundsson.

Tjónabætur voru greiddar út frá haustinu 1973 og árið 1974. Þá eru ekki reiknaðar bætur vegna tjóns á lausafjármunum, innbúum og slíku, en þær urðu um tveir milljarðar á verðlagi dagsins.

Ef öll útgjöld Viðlagasjóðs vegna Vestmannaeyjagossins eru framreiknuð er summan alls 55 milljarðar króna.

Nán­ari um­fjöll­un er að finna í Morg­un­blaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert