Agnar Már Másson
„Núna er boltinn hjá Samtökum atvinnulífsins,“ segir Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, við mbl.is. Samninganefnd breiðfylkingar stærstu stéttafélaga og landssambanda fundaði með Samtökum atvinnulífsins (SA) í dag.
Eins og mbl.is greindi frá fyrr í dag hófst fundur SA og breiðfylkingarinnar klukkan 13.00 en honum er nú lokið. Vilhjálmur, sem er einn þriggja verkalýðsleiðtoga í broddi breiðfylkingarinnar, segir í samtali við mbl.is að samninganefndin hafi kynnt nýja nálgun á fundinum.
„Við fórum inn í stofuna og töluðum þar um nýja nálgun. Núna er boltinn hjá þeim,“ segir Vilhjálmur, sem getur aftur á móti ekki tjáð sig frekar um þessa svokölluðu nýju nálgun félagsins.
Hann segir erfitt að segja til um hvort viðræður séu á betri stað nú en þær voru fyrir fundinn.
Breiðfylkingin samanstendur af 93% félaga í Alþýðusambandinu og um 73% af vinnandi fólki á Íslandi, að sögn Vilhjálms. Hafi hún unnið ásamt SA að því að ná ákveðinni þjóðarsátt, sem séu sameiginleg markmið vinnumarkaðarins um að ná niður verðbólgu og stýrivöxtum sömuleiðis.