Dýraverndunarsamtök kæra meint dýraníð blóðmera

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. mbl.is/Árni Sæberg

Dýra­vernd­un­ar­sam­tök­in AWF/​​​TSB (Ani­mal Welfare Foundati­on/​​​Tierschutzbund Zürich) hafa lagt fram kæru til lög­reglu vegna dýr­aníðs og brota gegn lög­um um vel­ferð dýra. 

Heim­ild­in grein­ir frá þessu og seg­ir að lög­manns­stof­an Rétt­ur hafi lagt fram kær­una hjá Lög­regl­unni á höfuðborg­ar­svæðinu fyr­ir hönd sam­tak­anna sem eru þýsk og sviss­nesk. 

Sam­tök­in fara þess á leit við lög­reglu­yf­ir­völd að málið verði sett í far­veg ákærumeðferðar þar sem þau telja gögn liggja fyr­ir sem sýni al­var­legt of­beldi gegn hest­um sem skuli vera rann­sakað, stöðvað og gerð viðeig­andi refs­ing fyr­ir.

Upp­haf máls­ins má rekja til þess þegar dýra­vernd­un­ar­sam­tök­in AWF/​​​TSB birtu mynd­band þann 22. nóv­em­ber 2021 sem sýndi mynd­búta af meðferð hryssna við blóðtöku hér á landi.

Mat­væla­stofn­un tók málið til skoðunar og sögðust líta málið al­var­leg­um aug­um en til­raun­ir voru gerðar til þess að nálg­ast mynd­efnið óklippt frá dýra­vernd­un­ar­sam­tök­un­um. Mast sagði sam­tök­in hafa hafnað því að senda þeim óklippt efni en greint frá því hvenær upp­tök­ur á efn­inu fóru fram.

Rann­sókn Mast leiddi þó í ljós hvar at­vik­in áttu sér stað og hver hafi átt hlut í máli.

Mál­inu var vísað til lög­reglu í janú­ar árið 2022 en fyr­ir ári síðan, í janú­ar 2023, var rann­sókn Lög­regl­unn­ar á Suður­landi lögð niður vegna skorts á sönn­un­ar­gögn­um er­lend­is frá. Lög­regl­an reyndi þá ít­rekað að kom­ast yfir frek­ari gögn frá dýra­vernd­un­ar­sam­tök­un­um sem upp­ljóstruðu mál­inu en allt kom fyr­ir ekki.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert