Grínmyndin Fullt hús er á leiðinni í kvikmyndahús næsta föstudag og veitir okkur áreiðanlega ekki af smá upplyftingu nú á tímum náttúruhamfara. Sigurjón Kjartansson á heiðurinn af handritinu, en hann brá sér einnig í leikstjórastólinn í þetta skipti. Sigurjón á að baki langan feril í skemmtanabransanum en hann hefur verið í hljómsveit, unnið í útvarpi, sjónvarpi og kvikmyndum og er hvergi nærri hættur. Nú þegar von er á nýrri kvikmynd var ekki úr vegi að hitta þennan fjölhæfa listamann sem hefur skemmt þjóðinni í áratugi, bæði með gríni og drama. Sigurjón var í óðaönn að leggja lokahönd á kvikmyndina en gaf sér tíma til að heimsækja blaðamann í höfuðstöðvar Morgunblaðsins einn ískaldan eftirmiðdag í vikunni.
„Það er nú þannig að sama hversu langan fyrirvara maður telur sig hafa, þá þarf maður alltaf að vera að snurfusa og pússa fram á síðustu stundu,“ segir Sigurjón og lofar að myndin verði tilbúin fyrir frumsýningu.
„Í myndinni er fylgst með heimkomu heimsþekkts sellóleikara sem kemur heim eftir tuttugu ára sigurgöngu erlendis og það fer strax að syrta í álinn. Hann er ekki allur þar sem hann er séður og eitt leiðir af öðru,“ segir Sigurjón sposkur.
Sigurjón er sjálfstætt starfandi kvikmyndagerðamaður sem velur sér sjálfur sín verkefni, en undanfarin tvö ár hefur hann unnið að kvikmyndinni Fullu húsi. Fleira er hann með í pípunum.
„Ég er að undirbúa seríu sem ég áætla að fara með í tökur í haust. Hún heitir Þokan og er dramasería,“ segir hann og vill ekki gefa meira upp.
Þannig að þú sveiflast á milli drama og gamans eins og ekkert sé?
„Já, eins og jójó.“
Hvernig gengu tökurnar að Fullu húsi?
„Ég hef sjaldan upplifað jafn skemmtilegt ferli; hugmyndin kom hratt og örugglega en ég var að vinna í öðru verkefni þannig að ég hélt í mér og byrjaði ekki að skrifa strax,“ segir Sigurjón og segir að þegar hann loksins settist niður voru komnar fullmótaðar hugmyndir og eftirleikurinn því auðveldur.
„Í þessari mynd eru mörg hlutverk, þó hún sé ekki flókin. Það er svo gaman að þarna er hlaðborð af bestu gamanleikurum landsins. Þarna eru allir gömlu vinir mínir; Helga Braga, Ilmur, Katla, Hilmir Snær, Halldór Gylfason, Jón Gnarr og margir fleiri. Svo má ekki gleyma mjög eftirminnilegu „comeback-i“ hjá Eggerti Þorleifssyni sem fer þarna á kostum og skilar klassískum Eggerti,“ segir Sigurjón og segir tökur hafa gengið afar vel.
„Þetta er í fyrsta skipti sem ég leikstýri bíómynd, en er samt ekki algjör nýgræðingur. Mér finnst það gaman, sérstaklega þegar maður er með hóp svona stórkostlegra leikara. En ég hef aldrei sóst eftir leikstjórastólnum því ég hef verið að þroska mig sem handritshöfund og sem framleiðanda. Þar get ég unnið á mjög skemmtilegan og kreatívan hátt með leikstjórum og það er gaman að sjá þá koma mér á óvart. En þetta var mjög jákvæð reynsla og ég væri alveg til í að halda þessu áfram.“
Hvernig líður þér nú þegar myndin er að koma í kvikmyndahús? Spenntur eða kvíðinn?
„Ég er fyrst og fremst spenntur. Ég hlakka mikið til að sýna hana almenningi. Sjálfum finnst mér hún fyndin. Ég er ekki viss um neitt en ég á von á hlátri. Ég ætla að gera mitt allra besta svo brúnin lyftist á þjóðinni.“
Ítarlegt viðtal er við Sigurjón Kjartansson í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.