Kveðjuveislan kostaði tæpa milljón

Einar Þorsteinsson tók við lyklavöldum úr hendi Dags B. Eggertssonar …
Einar Þorsteinsson tók við lyklavöldum úr hendi Dags B. Eggertssonar í ráðhúsinu í vikunni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Heildarkostnaður við kveðjuhóf Dags B. Eggertssonar sem haldið var í Höfða sl. þriðjudag nam 927.200 krónum, skv. upplýsingum frá Evu Bergþóru Guðbergsdóttur, samskiptastjóra Reykjavíkurborgar.

Kostnaðurinn sem Reykjavíkurborg stendur straum af skiptist þannig að veitingarnar kostuðu 487.000 krónur, drykkir 160.000, kostnaður vegna tónlistarflutnings nam 150.000 krónum og framreiðslukostnaðar var 130.200.

Alls var 94 einstaklingum boðið til veislunnar, en á gestalistanum var náið samstarfsfólk Dags allt frá 2010, hluti kjörinna fulltrúa frá þessu tímabili úr öllum flokkum og þar með talið núverandi meirihluti og sitjandi oddvitar allra flokka í borgarstjórn.

Meðal gesta voru nokkrir fyrrverandi borgarstjórar, þ. á m. Þórólfur Árnason, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Jón Gnarr, Hanna Birna Kristjánsdóttir og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. Þá var ýmsum fyrrverandi borgarfulltrúum boðið til fagnaðarins, svo sem Björk Vilhelmsdóttur, Einari Erni Benediktssyni, Gísla Marteini Baldurssyni, Halldóri Auðar Svanssyni, Halldóri Halldórssyni, Hildi Sverrisdóttur og Óttari Proppé, svo nokkrir séu nefndir.

Einnig var boðið ýmsum embættismönnum núverandi og fyrrverandi sem og fyrirsvarsmönnum fyrirtækja í eigu borgarinnar að einhverju leyti.

Í þeim hópi voru m.a. fyrrverandi og núverandi stjórnarformenn Orkuveitu Reykjavíkur sem og fyrrverandi forstjóri fyrirtækisins. Einnig fyrrverandi og núverandi hafnarstjórar Faxaflóahafna, slökkviliðsstjóri Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins sem og staðgengill hans. Framkvæmdastjóra Sorpu var einnig boðið sem og framkvæmdastjóra Strætó, núverandi og fyrrverandi formönnum Félagsbústaða og einnig fyrrverandi og núverandi framkvæmdastjórum Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.

Þá var og boðið fyrirsvarsmönnum Betri samgangna, þeim Davíð Þorlákssyni og Þorsteini Hermannssyni.

Morgunblaðið hefur ekki upplýsingar um hverjir þáðu boðið, en öll framangreind nöfn er að finna á gestalistanum.

Samkvæmt upplýsingum frá Evu Bergþóru er kostnaður vegna þrifa í Höfða föst upphæð í hverjum mánuði óháð því hvenær eða hversu margar móttökur eða aðrir viðburðir eru í húsinu. Þá segir hún að enginn kostnaður hafi fallið til aukalega vegna húsvörslu í Höfða þar sem hann falli inn í vaktavinnu húsvarða sem vinna vaktavinnu í öllum stjórnsýsluhúsum borgarinnar.

Ekki hafa borist kostnaðartölur vegna morgunkaffisviðburðanna í Ráðhúsi og á Höfðatorgi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert