Rafmagn og hiti aftur kominn á víðast hvar

Rafmagn og hiti er aftur kominn á í stærstum hluta …
Rafmagn og hiti er aftur kominn á í stærstum hluta Grindavíkur. Ljósmynd/Hörður Kristleifsson

Rafmagn er komið á í allri byggð Grindavíkur og heitt vatn í stærstum hluta byggðarinnar, að undanskildu hafnarsvæðinu og Þórkötlustaðahverfi. Þetta kemur fram í tilkynningu almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra.

„Í dag fór flokkur pípulagningamanna í um 350 íbúðir í dag og hefur þá náð að fara í rúmlega 900 íbúðir af um 1200 í Grindavík nú í lok laugardags,“ segir í tilkynningunni. 

Tvö tjón vegna frostskemmda

Stefnt er að því að ljúka yfirferðinni á morgun. Þær íbúðir sem eftir eru, eru almennt taldar í góðu ástandi þar sem flestar eru nýlegar að sögn almannavarna.

Tvö tjón eru staðfest vegna frostskemmda en miðað við aðstæður telja almannavarnir ekki útilokað að fleiri tjón muni koma í ljós.

„Í sumum húsum hefur verið tregða vegna frosts og húsin því hituð með rafmagnsofnum og fylgst með hvort lagnir haldi. Unnið hefur verið að því að setja rafmagnsofna í fyrirtæki á hafnarsvæðinu í dag og heldur sú vinna áfram á morgun,“ segir í tilkynningu almannavarna.

Verkefnið gengið vonum framar

Unnið er að því að fá á svæðið lykla af síðustu húsunum og kemur fram að sú vinna hafi gengið vonum framar.

„Íbúar brugðust hratt við ákalli viðbragðsaðila við húslyklum sem einfaldaði alla vinnu iðnaðarmanna.“

Vinna pípulagningamanna er á lokametrunum og verður hægt að nálgast frekari upplýsingar um yfirferð þeirra á vef Grindavíkurbæjar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert