Veronika Steinunn Magnúsdóttir
Leggja á rafstreng yfir nýrunnið hraun í Grindavík og hófst sú vinna í morgun. Stofnstrengur gaf sig í gærmorgun og varaaflsvél Landsnets tekin í notkun í kjölfarið.
„Það fer rafstrengur yfir hraunið og upp í þrjú möstur. Það er verið að leggja línu yfir hraunið til þess að auka á afhendingaröryggi rafmagns Grindavíkur,“ segir Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri lögreglunnar á Suðurnesjum.
Eru margir sem koma að þessari aðgerð?
„Það eru kannski 50 til 70 manns að vinna í Grindavík í dag.“
Hefur verið gripið til ráðstafana til þess að tryggja öryggi þeirra sem vinna inni í Grindavík?
„Það er eins og hefur verið. Það er verið að vinna að vinna inni á hættusvæði. En öryggi allra þeirra sem eru á svæðinu er tryggt eins og nokkur kostur er,“ segir Úlfar og bætir við að öryggisstjóri hafi umsjón með svæðinu.
„Það er mjög vel passað upp á öryggi manna. Það er auðvitað verið að vinna við að koma rafmagni og hita á húsin í Grindavík,“ segir hann í lokin.