Samninganefnd breiðfylkingar stéttafélaga mun funda klukkan 13 með Samtökum atvinnulífsins hjá ríkissáttasemjara, þó deilunni hafi ekki verið formlega vísað til sáttasemjara. Breiðfylkingin kveðst skoða alla möguleika til að koma viðræðum aftur af stað.
Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins og einn þriggja verkalýðsleiðtoga sem standa í broddi breiðfylkingarinnar, segir í samtali við mbl.is að samninganefndin muni fyrst funda klukkan 11 og síðan ganga á fund Ástráðs Haraldssonar ríkissáttasemjara.
„Við óskuðum eftir liðsinni hans [sáttasemjara] strax í upphafi og hann hefur verið allan tímann,“ segir Vilhjálmur.
Telurðu líklegt að deilunni verði vísað formlega til sáttasemjara?
„Það er ómögulegt að segja. Við gerum okkur grein fyrir því að það er mikilvægt að eiga samtal, því allar deilur leystast á því að fólk tali saman – hugsi í lausnum. Þessi fundur er nú bara eiginlega til þess.“
Eins og fram hefur komið stendur breiðfylkingin saman af 93% félaga í Alþýðusambandinu og 43% af vinnandi fólki á Íslandi.
„Við erum að horfa á nýjar sviðsmyndir, hvað við getum gert. Hvernig hægt er að koma viðræðum aftur á teinana. Það er gríðarlega mikið undir,“ segir Vilhjálmur.
Það sem hann segir vera undir í viðræðunum eru sameiginleg markmið vinnumarkaðarins um að ná niður verðbólgu og að fá sveitarfélög til þess að draga gjaldskrárlækkanir til baka að einhverju leyti – markmið sem nokkrar sveitarstjórnir hafa sagst styðja.
„Við erum að skoða alla möguleika til að koma þessum viðræðum aftur af stað.“