Veronika Steinunn Magnúsdóttir
Þyrla Landhelgisgæslunnar mun fljúga með leiðara Landsnets yfir hraunbreiðuna í Grindavík á morgun og tengja þá við tvö möstur sem reist voru á svæðinu í dag.
„Þetta er umfangsmikil aðgerð,“ segir Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Landsnets.
Til stendur að setja upp loftlínu yfir hraunið, sem spannar um 300 metra á lengd.
„Hraunið rann yfir jarðstreng frá HS Veitum og við fórum í þá aðgerð í dag að reisa möstur sitt hvorum megin við hraunbreiðuna þar sem strengurinn er undir. Síðan verður jarðstrengurinn tekinn í sundur og settur í loftlínu yfir hraunið.“
Steinunn segir að vel hafi tekist til í dag en á morgun blasir við umfangsmeira verkefni.
„Á morgun munum við fara í að strengja leiðarana á milli mastranna. Við munum fá aðstoð Landhelgisgæslunnar. Þetta eru hátt í 300 metrar og það er auðvitað ekki hægt að fara yfir hraunið. Svo þyrla Landhelgisgæslunnar mun fara með leiðarana á milli,“ segir Steinunn og bætir við að þyrlan muni líklega þurfa að fara þrjár ferðir.
„Þetta verður umfangsmikil aðgerð en við eigum von á að hún muni ganga vel. Síðan verður vonandi hægt að fara í tengivinnu í framhaldinu og á mánudaginn hægt að hleypa straum á línuna.“