Tvenn lög sem ekki þarf að fara eftir

„Ég er dálítið hrifin af því outlooki á lífið. Ég væri til í að velja svona tvenn lög sem ég mætti bara velja að fara ekki eftir.“ Þetta segir Ólöf Skaftadóttir, fjölmiðlamaður í léttum dúr í umræðum um stöðu ríkisstjórnarinnar þar sem hún var til umræðu í Spursmálum í dag.

Vísaði hún þar til þeirra ummæla Svandísar að lög um hvalveiðar, sem hún gekk í berhögg við, auk stjórnarskrárinnar, þegar hún án fyrirvara bannaði hvalveiðar á liðnu sumri.

Ólöf er gestur þáttarins ásamt Birni Inga Hrafnssyni, einnig fjölmiðlamanni. Hann segir stöðuna súra á stjórnarheimilinu og m.a. sé það vegna framgöngu og stöðu Svandísar Svavarsdóttur, matvælaráðherra.

Mál Svandísar í algjörum hnút

„Málið er algjörlega óleyst enn þá. Og sami titringurinn í rauninni á bak við tjöldin. Sjálfstæðismenn hafa komið því áleiðis til Vinstri grænna og hluti Framsóknarflokksins að nú verði að gerast breytingar til að koma í veg fyrir að það sé hægt að leggja fram vantrausttillögu. Þannig að einstaka stjórnarþingmenn þurfi ekki að gera það upp við sig hvort þeir verji hana falli. En það hefur bara ekkert heyrst í Svandísi. Hún hefur ekki komið með nein viðbrögð við þessu,“ segir Björn Ingi.

Hann segir að VG leggi nú höfuðáherslu á að verið sé að rýna álit umboðsmanns Alþingis. Það sé leiðin sem stjórnin hafi ákveðið að fara nú þegar hún þurfi að troða marvaðann. Hins vegar hafi atburðirnir í Grindavík breytt nokkuð tímalínu atburða og að stjórnarandstaðan spili rétt úr sínum málum með því að leyfa ríkisstjórninni að bregðast við þeim hræðilegu aðstæðum. Málið sé hins vegar ekki úr sögunni og að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Inga Sæland gangi með vantrausttillöguna í vasanum og geti lagt hana fram gegn Svandísi hvenær sem er.

Alþingi kemur saman eftir jólafrí á mánudaginn næsta, 22. janúar.

Hvalveiðimál flutt milli ráðuneyta?

Í þættinum bendir Ólöf á að sú hugmynd sé uppi að reyna að draga úr spennu milli ríkisstjórnarflokkanna með því að færa málefni hvalveiða út úr ráðuneyti Svandísar og þá jafnvel í ráðuneyti Guðlaugs Þórs Þórssonar. Jafnvel kæmi til greina að Svandís hefði stólaskipti við Guðmund Inga Guðbrandsson.

„Ég veit samt ekki, er það nóg? Eru önugheitin ekki orðin það mikil [...]“ segir Ólöf.

„Það er spurning hvað verður til að framlengja þetta líf en hún er lifandi dauð. Ef þú talar við ráðherra í einkasamtölum þá segja þeir að það sé engin stemning lengur. Það vita það allir og það er bara spurning um hvernig þessu verður undið fram, hvaða ákvarðanir þurfi að taka. Og þá er meira að segja orðið erfitt fyrir þau að vísa til hluta eins og Grindavíkur og kjarasamninganna því það eru engir stjórnarandstöðuflokkar að fara að standa á móti því. Starfsstjórn getur alveg tekið þær ákvarðanir sem þarf. Þjóðin stendur með Grindvíkingum í þessu. Auðvitað eru einhverjar útfærslur sem þarf að ræða en í stóra samhenginu þá stöndum við með Grindvíkingum,“ segir Björn Ingi.

Þessi stjórn þarf ekki að klára neitt

„Já, það er meirihluti í þinginu fyrir þessum málum sem við stöndum frammi fyrir. Það er ekkert sem segir að þessi ríkisstjórn þurfi að klára þau,“ bætir Ólöf við.

„Og það eru nú einu málin sem hafa klárast í nokkur misseri í þinginu, það eru EES-mál eða þverpólitísk mál. Önnur eru stopp. Komast annað hvort ekki í gegnum ríkisstjórn eða þingið,“ bætir Björn Ingi við.

Viðtalið við þau Ólöfu og Björn Inga má sjá og heyra í heild sinni hér:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert