Varaformaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins segist enn bíða eftir því að matvælaráðherra og flokkur hennar sýni hvernig þau ætli að vinna traust sitt til baka. Sjálfstæðisflokkurinn hafi ekki tekið afstöðu til vantrauststillögu á hendur matvælaráðherra sem á að leggja fram á morgun.
Eins og mbl.is greindi frá í gær hyggst Flokkur fólksins leggja fram vantrauststillögu á hendur Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra þegar þing kemur saman kl. 15 á morgun.
Hildur Sverrisdóttir, formaður þingflokksins sjálfstæðismanna, sagði við mbl.is í gær að henni þætti gagnrýnivert hvað það hafi tekið langan tíma fyrir Vinstri græna að „axla ábyrgð“ á áliti umboðsmanns.
„Það er það sem við höfum verið að segja frá því að álitið kom, að nú væri það ráðherrans og Vinstri grænna að sýna hvernig þau ætli að vinna traust sitt til baka, sem fór með þessari háttsemi ráðherra. Þau segjast taka þetta mál alvarlega en þau verða að sýna að þau taki málinu alvarlega,“ segir Vilhjálmur Árnason við mbl.is en hann er varaformaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins.
„Og þegar þau eru búin að sýna þau spil þá getum við tekið afstöðu til þess hvernig við tökum næstu skref,“ bætir hann við.
Ættu þau þá að axla ábyrgð með einhvers konar stólaskiptum milli ráðuneyta?
„Það er hægt að gera það á marga vegu. Nú er það bara þeirra sem stjórnmálaafls, sem vill láta taka sig alvarlega, að sýna að þau vilji vinna traust til baka,“ svarar Vilhjálmur.
Í fyrra skipti Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra um ráðuneyti við Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttur, fjármála og efnahagsráðherra og samflokksmann sinn, í kjölfar afsagnar sinnar vegna álits umboðsbanns Alþingis, sem sagði Bjarna hafa brostið hæfi við sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.
Í áliti umboðsmanns á hvalveiðibanninu kom fram að matvælaráðherra hefði stöðvað hvalveiðar með ólögmætum hætti. Þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa margir lýst því yfir að þeir telji líklegt að gervöll stjórnarandstaðan kjósi með tillögunni.