Stjórnarandstaðan muni styðja vantraust

Ekki liggur fyrir hversu margir meðfluttningsmenn verða með tillögunni.
Ekki liggur fyrir hversu margir meðfluttningsmenn verða með tillögunni. Samsett mynd/mbl.is/Kristinn

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, segir að allir þingmenn stjórnarandstöðunnar sem hann hafi talað við ætli að styðja vantrauststillögu gegn Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra.

Eins og mbl.is greindi frá í gær þá mun Flokkur fólksins leggja fram vantrauststillögu gegn Svandísi á morgun þegar þing kemur saman.

„Ég tel allar líkur á því að stjórnarandstaðan öll muni styðja vantrauststillögu enda hefur verið litið svo á að atkvæðagreiðsla um vantraust væri einfaldlega atkvæðagreiðsla um hvort þú styðjir ríkisstjórn og ráðherra eða ekki,“ segir Sigmundur og heldur áfram:

„Það kæmi mér mjög mikið á óvart ef einhver úr stjórnarandstöðunni, í svona atkvæðagreiðslu, lýsti yfir stuðningi við matvælaráðherrann með því að greiða atkvæði gegn vantrauststillögu.“ 

Ekki formlega sammælst um niðurstöðu

Sigmundur segir að stjórnarandstaðan hafi ekki með formlegum hætti sammælst um hvernig skuli kjósa en segir hann þó að öll samtöl sem hann hafi átt við þingmenn stjórnarandstöðunnar hafi verið á þann veg að stjórnarandstaðan muni styðja vantrauststillögu ef hún yrði lögð fram.

Ekki liggur fyrir hversu margir meðflutningsmenn verða með tillögunni en Sigmundur segir það ekki vera aðalatriði. Flestir hafi þegar gert ráð fyrir því að hún yrði lögð fram. Sigmundur segir að þingmenn Miðflokksins muni styðja við vantrauststillögu óháð tímasetningu.

„Ég hef nú svo sem áður sagt að ef ríkisstjórnin kæmi með einhvers konar neyðarlög eða eitthvað sem hún vildi afgreiða á tveimur dögum þá hefði mér þótt eðlilegt að klára það áður en farið yrði í vantrauststillöguna. Hins vegar mega ekki atburðir eins og þessir eða aðrir verða til þess að menn sleppi því að taka á því þegar ráðherra ekki aðeins brýtur lög, heldur segist mega gera það,“ segir Sigmundur.

Hann segir að mál sem varða stuðning við Grindvíkinga verði áfram unnin þrátt fyrir tillöguna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert