„Við teljum að þetta sé alvarlegt“

Framsókn bíður eftir viðbrögðum frá VG. Búið er að boða …
Framsókn bíður eftir viðbrögðum frá VG. Búið er að boða vantrauststillögu sem verður yrði fram á morgun. Samsett mynd

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar, segir þingmenn Framsóknar enn bíða eftir viðbrögðum Vinstri grænna við áliti umboðsmanns Alþingis. Ekki liggur fyrir hvort að allir þingmenn Framsóknar muni verja Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra gegn vantrausti.

„Við höfum í rauninni verið skýr í þessu máli frá upphafi. Þetta álit, eins og hefur komið fram, kom ekki á óvart því miður. Það var búið að benda á þetta, við vorum búin að benda á þetta og aðrir aðilar. Við teljum að þetta sé alvarlegt,“ segir Ingibjörg í samtali við mbl.is og bendir á að Svandís sé að skoða málið ásamt ráðuneyti sínu.

„Þannig boltinn er þar og við ætlum að sjá hvað setur. Það er ekki enn komin fram vantrauststillaga,“ segir Ingibjörg.

Kalla eftir viðbrögðum frá VG

Flokkur fólksins mun á morgun leggja fram vantrauststillögu gegn Svandísi að sögn Ingu Sæland, formanns Flokks fólksins. Þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins sagði í gær við mbl.is að boltinn væri hjá Vinstri grænum og sagði að það væri gagnrýnisvert hversu langan tíma það tæki fyrir Vinstri græna að „axla ábyrgð“.

Spurð að því hvort allir þingmenn Framsóknar muni verja Svandísi vantrausti ef að til atkvæðagreiðslu kemur segir Ingibjörg:

„Það fer bara eftir því hver atburðarásin verður núna næsta sólarhring og sólarhringa. Við höfum beint þessu til Vinstri grænna og erum að kalla eftir viðbrögðum þaðan og það verður bara að sjá hvað gerist þar í framhaldinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert