Vill opna Grindavíkurbæ aftur

Stefán vill girða af hættulegustu svæðin í Grindavík en opna …
Stefán vill girða af hættulegustu svæðin í Grindavík en opna bæinn aftur þar sem öruggast er. Ljósmynd/Hörður Kristleifsson

Stefán Kristjánsson, eigandi ferskfiskvinnslunnar Einhamar Seafood, telur að stjórnvöld hafi farið offari með ákvörðun sinni um að loka Grindavík.

Hann segir að kortleggja eigi hættulegustu svæðin og girða þau af en leyfa fólki að snúa til síns heima þar sem öruggara er að vera í bænum.

„Það eru mjög margir sama sinnis. Það er alið á þessum ótta og alið á þessum hættum. Ég sjálfur held að Grindavíkurvegurinn sé hættulegri en að vera í Grindavík,“ segir Stefán í samtali við mbl.is.

Tjónið hleypur á milljónum

Dýrmætar sjávarafurðir hafa á síðustu dögum skemmst hjá fiskvinnslum þar sem ekki mátti flytja afurðirnar úr bænum.

Síðustu daga hefur fólki verið hleypt í fyrirtæki sín í Grindavík til að viðhalda kælikerfum og slíku, eins og í tilfelli Stefáns, og finnst honum því skjóta skökku við að hann fái að fara inn í bæinn til að sinna viðhaldi en fái ekki flytja afurðirnar úr bænum. Tjónið af skemmdum afurðum hleypur á milljónum króna.

„Aðallega finnst mér þetta vera sóun á lífsins gæðum að þurfa henda hágæða matvælum,“ segir hann og bætir við að ýmis verðmæti fólks og fyrirtækja séu að fara forgörðum í bænum.

„Búslóðir fólks og lager hjá öðrum smærri fyrirtækjum eins og matsölustöðum. Rafmagn hefur farið af bænum hvað eftir annað, hiti líka, allar þær vörur eru ónýtar,“ segir Stefán.

Grindvíkingar þekkja Grindavík best

Stefán kveðst vilja sjá hættulegustu svæðin girt af en að öruggustu svæðin í Grindavík verði opnuð aftur undir smávægilegu eftirliti.

Sjálfur mun hann flytja strax aftur til Grindavíkur um leið og það verður leyft og segir hann einnig að Einhamar muni hefja starfsemi á ný þegar það verður leyft.

„Við þekkjum Grindavík best við Grindvíkingar. Með aðstoð slökkviliðs og björgunarsveit Grindavíkur getum við safnað saman búslóðum og hjálpað fólki að halda húsunum heitum. Það þarf að leyfa fólki að bjarga búslóðum því að fólk er bara á vergangi og er út um allt í alls kyns hundakofum, hjólhýsum, hesthúsum, sumarbústöðum og inn á fólki,“ segir Stefán.

Íþróttirnar sameina Grindvíkinga

Að lokum segir hann að það reyni á að halda Grindvíkingum saman, enda Grindvíkingar víðs vegar um landið. Það sem haldi Grindvíkingum saman séu íþróttirnar.

„Það eina sem heldur okkur saman eru íþróttirnar. Við sameinumst á kappleikjum,“ segir Stefán og bætir við:

„Þarna gleymum við aðeins tímanum, íþróttirnar sameina okkur og Grindavíkurhjartað slær með íþróttafélögunum okkar. Áfram Grindavík og áfram UMFG.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert