Gísli Hinrik Sigurðsson, stofnandi Garðheima, lést á Hrafnistu við Brúnaveg 16. janúar síðastliðinn, 79 ára að aldri.
Gísli fæddist 16. desember 1944 í Hrísey og ólst þar upp fyrstu árin, þar til fjölskylda hans fluttist í Kópavoginn árið 1959. Gísli var næstelstur fjögurra barna þeirra hjóna, Helgu Guðrúnar Karlsdóttur Schiöth húsfreyju og Sigurðar Björns Brynjólfssonar, dreifingarstjóra Tímans.
Fjórtán ára að aldri var Gísli farinn að starfa á millilandaskipi og var í siglingum í nokkur ár. Hugurinn stefndi í flugnám og lauk hann einkaflugmannsprófi árið 1964. Sjóngalli kom í veg fyrir frekara flugnám og hóf Gísli þá nám í radíósímvirkjun. Lauk hann þar meistaraprófi hjá Landssíma Íslands.
Gísli vann við mælingar fyrir sjónvarpsútsendingar víða um land, flutti með fjölskyldu sína að Gufuskálum á Snæfellsnesi árið 1969 og starfaði þar við Lóranstöðina í þrjú ár, flutti síðan í Hafnarfjörðinn 1972 og þremur árum síðar í Kópavoginn, þar sem fjölskyldan hefur búið síðan.
Gísli varð tæknimaður og síðar tæknistjóri við Sjónvarpið og síðar deildarstjóri rekstrardeildar Stöðvar 2. Um tíma starfaði hann einnig á Tímanum sem framkvæmdastjóri.
Árið 1991 festi Gísli kaup á Verslun Sölufélags garðyrkjumanna og stofnaði þá Gróðurvörur ehf. Gísli stofnaði svo Garðheima við Stekkjarbakka í desember 1999 og stjórnaði fyrirtækinu fram á efri ár. Börn Gísla tóku síðan við rekstri Garðheima, sem nú hefur flutt í nýtt og glæsilegt húsnæði við Álfabakka 6.
Meðfram öðrum störfum ráku þau hjónin, Gísli og Jónína Sigríður Lárusdóttir, f. 1947, nokkur fyrirtæki saman. Má þar nefna matvöruverslunina Langholtsval, Snakk og videohornið í Engihjalla og tískuvöruverslunina Viktoríu við Laugaveg.
Gísli lét til sín taka í félagsmálum. Sat hann í stjórn JC Borg um skeið, var í stjórn Starfsmannafélags Sjónvarpsins, virkur félagi í Oddfellowstúku nr. 11, Þorgeiri, félagi í Garðyrkjufélagi Íslands og Dalíuklúbbnum. Stærsta áhugamál Gísla var garðyrkja og var hann frumkvöðull í ræktun ýmissa matjurta, sérstaklega ávaxtatrjáa og berjategunda. Einnig var hann mjög liðtækur í skógrækt. Þá hafði Gísli mikinn áhuga á skák og iðkaði borðtennis og keilu af kappi.
Gísli og Jónína eignuðust fjögur börn; Sigurð Björn, Kristínu Helgu, Olgu Björney, og Jónu Björk. Afabörnin eru 13 talsins og langafabörnin þrjú.
Útför Gísla fer fram frá Digraneskirkju mánudaginn 5. febrúar kl. 13.