Ríkisstjórnin er að skoða uppkaup á öllu húsnæði í Grindavík en telur að ekki sé tímabært að taka þá ákvörðun og þá hvort ástæða sé til þess að taka svo afdrifaríka ákvörðun strax.
Þetta kom fram á fréttamannafundi ríkisstjórnarinnar sem kynnti stöðu aðgerða vegna náttúruhamfara í Grindavík á fundi sem hófst fyrir skemmstu. Öllum stjórnmálaflokkum var kynnt um stöðuna á fundi sem lauk í Ráðherrabústaðnum upp úr hádegi í dag.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, segir að að áfram verði launastyrkur og húsnæðisstyrkur í boði fyrir Grindvíkinga. Hækka á fjárhæðina og ráðast í enn frekari uppkaup á íbúðum fyrir Grindvíkinga til að taka á skammtímavanda í gegnum Bríet leigufélag. Þegar hefur verið tilkynnt um kaup á 150 íbúðum til handa Grindvíkingum samkvæmt ákvörðun verður nú 50 íbúðum bætt við.
Þá sagði hún að ekki væri hægt að svara með óyggjandi hætti hvort Grindavík verði byggileg til framtíðar. „Við þurfum að bjóða Grindvíkingum upp á lausnir því við getum ekki gert ráð fyrir því að Grindvíkingar komist heim á næstu misserum og árum,“ segir Katrín.
Því stæði ríkisstjórnin frammi fyrir þeirri spurningu hvort best væri að kaupa upp allar íbúðir eða húsnæði í Grindavík eða hvort gera ætti fólki kleift að leysa til sín eigið fé í húsnæði sínum til að geta fundið sér húsnæði annars staðar.
Ekki væri ákveðið hvort húsnæðið yrði keypt af Grindvíkingum eða hvort þeir yrðu leystir undan sínum skuldbindingum við lánastofnanir og á þessari stundu væri best að geyma ákvörðun um eignarhald á húsnæði til framtíðar.
Tvenn markmið væru framundan. Annars vegar að eyða óvissu Grindvíkinga en einnig að taka afstöðu til þess hvort byggðarlagið verði byggilegt til framtíðar.
Hún segir að meðal annars þurfi að leita lögfræðilegs álit varðandi það hvaða staða kemur upp lagalega ef húsnæðið verður keypt.