Atvinnurekendur í óvissu í Grindavík

Fjöldi nýrra sprungna myndaðist í jarðhræringunum í janúar.
Fjöldi nýrra sprungna myndaðist í jarðhræringunum í janúar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Grindvíkingar búa við nístandi óvissu um framtíð sína og eru atvinnurekendur í bænum alls ekki undanskildir því. Aðstæður atvinnurekenda í bænum eru mjög misjafnar en margir hverjir hafa orðið fyrir miklu tjóni. Allir eiga þeir það sameiginlegt að standa frammi fyrir stórum áskorunum og erfiðum ákvörðunum.

Halla María Svansdóttir, eigandi veitingastaðarins Hjá Höllu, leitar nú að atvinnuhúsnæði til tímabundinnar leigu til allt að tveggja ára. Halla hefur rekið veitingastaðinn við góðan orðstír í Grindavík undanfarin ár en hún er einnig með rekstur á Keflavíkurflugvelli.

Vonast til að komast til baka

„Við höfum fengið góð viðbrögð en vikan hjá okkur fer bara í það að fara að skoða það sem er í boði. Við erum að leita að vinnslueldhúsi fyrst og fremst og svo mun hitt koma í ljós í framhaldi af því,“ segir Halla í samtali við Morgunblaðið.

Segir hún að ráðgert sé að koma veisluþjónustu og fyrirtækjaþjónustu af stað á ný og hún er að skoða vænlega kosti í Sandgerði, Reykjanesbæ og á höfuðborgarsvæðinu fyrir slíka starfsemi. Hún segist vonast til þess að um tímabundna lausn verði að ræða og að hún komist aftur til Grindavíkur þegar réttur tími gefst.

Starfsemin er í tvennu lagi sitt í hvoru húsnæðinu í bænum. Húsnæðið sem hýsir vinnslueldhús Hjá Höllu er ónýtt en húsnæði veitingastaðarins er í góðu ásigkomulagi. Halla segist hafa farið inn í húsnæði veitingastaðarins nýlega til að undirbúa opnun hans á ný.

„Við vorum að fara að vinna aftur þarna. Ég var búin að mála og kaupa nýjar hillur – ég var í alls konar lagfæringum og að fá smiði inn,“ segir Halla.

Halla hefur engin svör fengið í sambandi við skemmdir á atvinnuhúsnæði sínu. Hún segir að talað hafi verið um að eitthvað kæmi út úr slíku mati um næstu mánaðamót. Segir hún vel skiljanlegt að íbúðarhúsnæði hafi verið sett í forgang en segir að engu að síður þurfi atvinnurekendur að þurfa að fara að fá einhver svör.

Húsnæðið sem hýsir vinnslueldhús Hjá Höllu er ónýtt en húsnæði …
Húsnæðið sem hýsir vinnslueldhús Hjá Höllu er ónýtt en húsnæði veitingastaðarins er í góðu ásigkomulagi. Halla segist hafa farið inn í húsnæði veitingastaðarins nýlega til að undirbúa opnun hans á ný. mbl.is/Ásdís

Flytja ekki á einum degi

Arna Magnúsdóttir hjá Grindinni, alhliða byggingar- og trésmíðaverktaka í bænum, segir að nánasta framtíð fyrirtækisins sé óráðin. Fyrirtækið er tvískipt, annars vegar er trésmíðaverkstæði í Grindavík með um 7-8 stöðugildi og þar er allt stopp. Hins vegar rekur Grindin útideild þar sem verkefnastaðan er sterk en öll verkin inni í Grindavík.

Arna segir einhverja starfsmenn hafa verið í smærri verkefnum á höfuðborgarsvæðinu og fyrir Bláa lónið sem og við vinnu í Kerlingarfjöllum. Hún segir enga ákvörðun hafa verið tekna um að flytja starfsemi fyrirtækisins enda sé erfitt að taka ákvarðanir að svo komnu máli.

„Við flytjum ekki verkstæðið á einum degi. Það tekur marga daga að sækja tæki og tól þangað inn og það tekur mjög langan tíma að útbúa húsnæði.“

Arna segir að enginn hafi haft samband við forsvarsmenn fyrirtækisins frá 10. nóvember.

„Við bárum okkur eftir upplýsingum fyrstu vikuna eftir 10. nóvember og það voru bara nánast engin viðbrögð. Núna hef ég ekki sent einn tölvupóst. Ég er bara að bíða eftir að það verði hringt.“

Arna segist hafa rætt við Samtök iðnaðarins og segir að Samtök atvinnulífsins vinni að tillögum sem leggja eigi fyrir stjórnvöld.

„Ég bíð bara. Maður verður bara að vera rólegur – anda inn og anda út.“

Eld­hús smíðað af Grind­inni í Grindavík, hannað af Guðbjörgu Magnús­dótt­ur …
Eld­hús smíðað af Grind­inni í Grindavík, hannað af Guðbjörgu Magnús­dótt­ur inn­an­húss­arki­tekt.

Arna rekur einnig Vigt í félagi við systur sínar og móður en fyrirtækið er afsprengi Grindarinnar og hefur framleitt og selt vörur helgaðar heimilinu í rúman áratug.

Húsnæðið sem Vigtin rekur starfsemi í stendur á nýjustu gossprungunni og framleiðslan þar er háð verkstæði Grindarinnar. Arna segir að netverslunin Verma í Reykjanesbæ hafi tekið til við að selja vörur Vigtarinnar fyrir jólin og kveður hún mikla lukku yfir því að Verma hafi stokkið strax inn. „Við náðum svo sem að hreinsa allan lager þar út,“ segir Arna.

Ráðgert er að stjórnvöld kynni aðgerðir fyrir Grindvíkinga í dag en Arna kveðst ekki vongóð um að aðgerðapakki stjórnvalda komi til með að snúa að atvinnurekendum, „en maður vonar það auðvitað.“

View this post on Instagram

A post shared by VIGT (@vigtvigt)

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert