Full drastískt „að lýsa byggðarlagið óbyggilegt“

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hvers konar útfærsla við fjármögnun aðgerða varðandi íbúðarhúsnæði í Grindavík er óljós á þessari stundu. Hins vegar sé ljóst að hún beri með sér samstarf banka, lífeyrissjóða, náttúruhamfaratrygginga og ríkissjóðs.

Þetta segir Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, í samtali við mbl.is að loknum fundi ríkisstjórnarinnar um aðgerðir vegna neyðarástands í Grindavík.

Vilja gefa sér tíma 

Spurður hvort ekki þurfi að lýsa Grindavík óíbúðahæfa svo hægt sé að greiða Grindvíkingum út þá segir Sigurður Ingi það álitaefni sem þurfi að skoða gaumgæfilega.

„Við vildum bara stíga fram á þessum tímapunkti og segja það okkar vilja að losa óvissuna sem að einstaklingar glíma við en við gefum okkur hins vegar tíma í að fara í útfærsluna. En við viljum líka gefa okkur tíma til að taka endanlega afstöðu til þess hvort byggðarlagið Grindavík verði til í framtíðinni,“ segir Sigurður Ingi

Full drastísk ákvörðun þegar óvissa er algjör

Sigurður Ingi segir að ein hugmyndin sé að kaupa eigið fé af fólki í Grindavík en ábyrgjast lánin þannig að fólk geti farið með sitt eigið fé og keypt húsnæði annars staðar.  

Þá segir Sigurður Ingi að ákvörðun um það hvort farið verði í uppkaup á húsnæði muni ekki liggja fyrir fyrr en frumvarp lítur dagsins ljós eftir þá þverpólitísku vinnu sem framundan er.  „Við vitum að vilji íbúanna er misjafn og okkur finnst það líka full drastísk ákvörðun að lýsa byggðarlagið óbyggilegt þegar óvissan er algjör því það er möguleiki að hamfarirnar hætti,“ segir Sigurður Ingi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert