Gefur ekki tilefni til sérstakra viðbragða

Svandís Svavarsdóttir.
Svandís Svavarsdóttir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra segir álit umboðsmanns Alþingis um reglugerð hennar um hvalveiðar ekki gefa tilefni til sérstakra viðbragða. Það sé lögfræðileg niðurstaða ráðuneytis hennar. 

Í facebookfærslu segir hún engan illan ásetning hafa verið að baki reglugerð sinni um hvalveiðar. „Mér gekk ekkert annað til en að fara að lögum og þar á meðal og ekki síst mikilvægum lögum frá 2013 um að okkur beri að koma vel fram við dýr,” segir hún.

„En nú er álit umboðsmanns komið fram og ég hlusta á þau sjónarmið sem þar koma fram og tek þau til mín,” segir hún jafnframt og bætir við að ráðuneyti hennar hafi rýnt álitið. Lögfræðileg niðurstaða þess sé að það gefi ekki tilefni til sérstakra viðbragða.

„Það er í samræmi við niðurstöðu umboðsmanns en hann beinir ekki sérstökum tilmælum um úrbætur til mín, umfram það að hafa sjónarmiðin sem fram koma í álitinu í huga til framtíðar.”

Grípur til tveggja aðgerða

Svandís hefur ákveðið að fela óháðum aðila að fara yfir stjórnsýslu og lagaumgjörð hvalveiða, þar með talið alþjóðlegar skuldbindingar ríkisins og valdheimildir stjórnvalda á þeim grundvelli.

Álitsgjafi verður einnig beðinn um að gera tillögur að úrbótum eftir því sem við á og tillögur að breytingum á lögum, eftir atvikum.

Einnig hefur hún ákveðið að fela ríkislögmanni að leggja mat á erindi Hvals hf. Þar sem félagið óskar eftir viðræðum við ríkið um mögulegt uppgjör vegna álitsins.

„Ég gríp til þessara skýru viðbragða í ljósi þess að mikilvægt er að stjórnvöld beri virðingu fyrir eftirlitsstofnunum og sýni það í verki. Umboðsmaður Alþingis gegnir mikilvægu hlutverki í eftirliti með stjórnsýslu ríkisins í okkar lýðræðissamfélagi,” segir Svandís.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert