„Gefur manni von“

Páll Valur Björnsson, fyrrverandi þingmaður, tók til máls á íbúafundi …
Páll Valur Björnsson, fyrrverandi þingmaður, tók til máls á íbúafundi sem nýlega fór fram í Laugardalshöll. mbl.is/Arnþór

„Ég sem íbúi í Grindavíkurbæ er þannig gerður að ég er tilbúinn að draga andann þar til þessar niðurstöður með útfærslu á aðgerðum liggja fyrir.“

Þetta segir Páll Valur Björnsson, fyrrverandi þingmaður og íbúi í Grindavík til 40 ára, spurður um fund ríkisstjórnarinnar fyrr í dag.

Þar var Grindvíkingum tjáð að þeir myndu ekki bera ábyrgð á húsnæðisvandanum einir heldur myndi ríkið hlaupa undir bagga. 

„Það sem ég óttast varðandi útfærsluna er hins vegar hvort farið verði eftir brunabótamati síðasta árs eða fasteignamati, en ekki brunabótamati þessa árs. Það getur skipt gríðarlegum fjármunum,“ segir Páll Valur.

Vil ekki vera þarna næstu árin 

En hann segist þó vongóður. 

„Mér fannst þetta fundur sem gefur manni von. Von um að þau ætli að grípa okkur þannig að við getum ákveðið okkar örlög sjálf. Það er fullt af fólki sem vill vera í Grindavík og byggja samfélagið upp en ég er ekki einn af þeim,“ segir Páll Valur.

„Ég elska þennan bæ og hef búið þarna í 40 ár en ég vil ekki vera þarna næstu árin. Það er alveg á hreinu.“

Hann segir að eftir fundinn sé hann bjartsýnn á að hann verði keyptur út úr sínu húsnæði í Grindavík. 

„Og að mér verði gefinn sá kostur að hefja líf annars staðar. Það er algjör martröð að búa við þetta ástand eins og það hefur verið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert