Katrín: Taka yfir húsnæði Grindvíkinga

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að ríkisstjórnin muni beita sér til að taka yfir húsnæði Grindvíkinga. „Annars vegar með því að við tökum yfir samskiptin við banka og lífeyrissjóði, sem sagt lánveitendur, og hins vegar með því að koma inn og greiða Grindvíkingum út eigið fé.“

Katrín tekur þó fram að í þessari stöðu séu ólíkar leiðir séu í boði. Það sé hægt að kaupa upp húsnæði bæjarbúa, líkt og töluverð krafa hafi verið um, og þá sé líka hægt að hugsa sér að ríkið greiði Grindvíkingum eigið fé en þeir haldi húsunum í einhvern tiltekinn tíma. „Og eigi þá möguleikann á að snúa aftur og taka aftur við húsunum og endurgreiða þá sitt eigið fé,“ segir hún. 

„Hvorutveggja leið kostar auðvitað veruleg útlát ríkissjóðs og Náttúruhamfaratrygginga og aðkomu banka og lánveitenda. Þetta eru tugir milljarða sem þar um ræðir eins og hefur bara komið fram í fréttum,“ segir ráðherra. 

Eyða óvissu og gefa sér lengri tíma

Katrín segir aftur á móti að stóra málið í augum stjórnvalda sé að eyða óvissunni fyrir Grindvíkinga þannig að íbúar geti hafið nýtt líf. Jafnframt sé mikilvægt að gefa sér lengri tíma til að skoða framtíð byggðarlagsins sjálfs. 

„Því það er auðvitað eitthvað sem enginn treystir sér til að segja núna á þessum tímapunkti, á sama tíma og enginn treystir sér til að segja að byggðarlagið sé öruggt, þá er erfitt að segja að það verði óöruggt um alla framtíð,“ segir Katrín. 

Aðspurð segir hún að það sé ekki tímabært að lýsa Grindavík óíbúðarhæfa. Fundað hafi verið með vísindamönnum um helgina og meðal annars sé unnið að kortlagningu á öllu sprungukerfinu undir bænum. Allt séu það gögn sem skipti máli. 

„Það breytir því ekki að við metum óvissu Grindvíkinga, sem þeir hafa í raun verið í alveg frá því 25. október ef svo má að orði komast, vera orðna slíka að ríkið ætlar að stíga inn og eyða henni, en erum reiðubúin að skoða hins vegar möguleikana á þessum framtíðarmöguleikum fyrir þetta byggðarlag í aðeins betra tómi.“

Rík samstaða

Katrín fagnar því að stjórnvöld hafi átt góðan fund með stjórnarandstöðunni um þessi mál enda álitamálin mörg, t.d. við hvaða mat eigi að miða, brunabótamat eða fasteignamat, hvernig eigi að greiða það eigi áfram að halda hita á húsunum og tryggja lágmarksviðhald. „Þetta eru álitamálin sem eru fram undan, en þau eru öll reiðubúin að koma inn í þá vinnu sem ég fagna,“ segir Katrín og bætir við að það sé mikilvægt að þetta sé ekki flokkspólitískt mál. Þá hafi stjórnvöld einnig átt mjög góðan fund með bæjarstjórn Grindavíkur. 

Aðspurð telur Katrín að aðgerðir stjórnvalda skipti máli. „Auðvitað vilja þau fá kannski frumvarp í dag, og ég skil það alveg líka, en ég held að fólk hafi ríkan skilning á því að þetta er meira en að segja það þessi ákvörðun. En þetta loforð er hins vegar gefið í fullkominni samstöðu innan ríkisstjórnar og ég tel raunar miklu breiðari.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert