„Það er margt ágætt frá þessum fundi og þau segjast ætla að taka mál Grindvíkinga að sér og að þetta sé vel framkvæmanlegt. En á sama tíma er útfærslan óljós og hún getur skipt öllu máli,“ segir Hörður Guðbrandsson, formaður verkalýðsfélags Grindavíkur í kjölfar tillagna ríkisstjórnarinnar í húsnæðismálum Grindvíkinga.
Segja má að Grindvíkingar hafi verið á hrakhólum frá því jarðhræringar hófust í grennd við bæinn í nóvember.
Á kynningarfundi ríkisstjórnarinnar fyrr í dag kom fram að tvennt komi til greina.
Annars vegar að kaupa allar eignir af Grindvíkingum og hins vegar að hjálpa fólki að nálgast eigið fé í fasteignum sínum þannig að það geti sjálft keypt sér fasteignir annars staðar.
„Ég geri mér grein fyrir því að það er ekki vika síðan að fólk áttaði sig á stöðunni og það tekur tíma að útfæra þetta. Hins vegar þurfa þau að útskýra þetta fljótlega fyrir okkur og ég skora líka á þau að hafa samráð við okkur í verkalýðshreyfingunni sem höfum haft puttann á púlsinum og hitt inn í ástandið á hverjum tíma,“ segir Hörður.