Á meðan aðrir fagna Þorranum með sviðakjamma og rófustöppu þá munu þjóðfræðingar fagna honum með meðal annars nautacarpaccio með taponade og parmesanosti og kalkúnabringu með dijonkryddhjúpi næstkomandi laugardag.
Við fyrstu sýn er matseðill þorrablóts á vegum Þjóðbrókar, félags háskólanema í þjóðfræði og Félags þjóðfræðinga á Íslandi heldur óþjóðlegur.
Morgunblaðinu barst ábending um matseðilinn og kannaði málið hvers vegna matseðillinn væri ekki þjóðlegri en raun ber vitni.
Anna Karen Unnsteins, formaður félags þjóðfræðinga á Íslandi, kveðst í samtali við Morgunblaðið sjá skoplegu hliðina á matseðlinum en útskýrir að um sé að ræða veislu þar sem þorrablóti og árshátíð er steypt saman í eitt.
„Það kom nefnilega ekki fram á matseðlinum, en við höfum alltaf þorramat í forrétt og náum þannig bæði,“ segir Anna.
Hán heldur áfram og segir að gengið verði um með hákarl og brennivín á milli rétta, sungin verða þorralög og vikivaki dansaður. „Þetta kemur í bland við nútímalegri hluti þannig við reynum svona að höfða til allra.“
Matseðill á þorrablóti þjóðfræðinema og þjóðfræðinga:
Forréttir:
<ul> <li>Grafinn lax með sinnepssósu</li> <li>Skélfiskterriene með kavíarsósu</li> <li>Nauta carpaccio með taponade og parmesan osti</li> <li>Djúpsteiktar rækjur með sweet chilly</li> <li>Borið fram með brauði, pesto o.fl.</li> </ul>Aðalréttur:
<ul> <li>Grillað lambalæri með ferskum kryddjurtum </li> <li>Kalkúnabringa með dijon kryddhjúp</li> <li>Borið fram með villisveppasósu, béarnaise sósu, fersku grænmeti, hrásalati, Waldorfsalati, hvítlauksgratínkartöflum, brauði ofl. </li> </ul>Anna segir að einnig verði veganmatseðill, en Morgunblaðið hefur ekki fengið hann í hendur.