Segir stjórnvöld hafa eytt óvissu Grindvíkinga

Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og íbúi í Grindavík, segist ánægður með tillögur ríkisstjórnarinnar um aðgerðir vegna nátt­úru­ham­fara í Grinda­vík. Hann segir mikilvægt að íbúar Grindavíkur fái val um framhaldið.

Næsta stóra verkefni er að styðja við uppbyggingu atvinnulífsins í Grindavík.

Mikilvægt er að búið sé að taka þessa stóru ákvörðun núna um að fólk verði laust undan sínum skuldbindingum, segir Vilhjálmur.

„Íbúar Grindavíkur geta því búið sér til nýtt upphaf á nýjum stað og það gleður mig að útfærslan eigi einmitt að miðast við að fólk geti haldið tryggð sína við húsakynni sín í Grindavík skyldi staðan breytast fljótt til betri vegar.“

Ákvörðunin um framhaldið liggur hjá íbúum

Vilhjálmur telur Grindvíkinga gefa því skilning að vandað sé til verka á útfærslunni enda ákvörðunin mikilvæg fyrir íbúa svæðisins. Hann bætir við að stóra svarið sem íbúar fái með aðgerðunum er að þeir þurfa ekki að hafa áhyggjur af því að vera fjárhagslega bundnir við eignir sínar í Grindavík. 

Hann segir því óvissunni hafa verið eytt.

„Það er einmitt verið að gefa stjórnvöldum svigrúm til þess að útfæra þetta þannig að fólkið sjálft hafi sem mest vald. Annars vegar getir þú valið þér að búa til nýtt upphaf á öðrum stað og losað þig undan þeirri óvissu sem er, en þú hefur líka val um að koma til baka – það fer bara eftir því hvernig þú nýtir þér þessa lausn.“

Ætlar sjálfur að finna sér nýjan samastað

Vilhjálmur ætlar sjálfur að finna sér nýjan fastan samastað en segist vona að mál þróist þannig í Grindavík að hann geti flutt aftur í húsnæði sitt. 

„Mér finnst ekki forsvaranlegt fyrir börnin mín að halda óvissunni áfram, eða að bíða með einhverja ákvörðun um að fara annað,“ segir Vilhjálmur, spurður út í framhaldið. 

Að lokum bætir Vilhjálmur við að nú þegar búið er að taka þessa ákvörðun þarf að líta á næsta stóra verkefni.

„Það er að tryggja það að atvinnulífið nái að styrkjast á ný. Það atvinnulíf sem getur starfað í Grindavík, við þurfum að styðja við það til þess að áframhaldandi starfsemi sé möguleg. Því fyrr mun bærinn byggjast aftur upp.“

Stjórnvöld standi með fólkinu

Vilhjálmur er bjartsýnn um framhaldið og segir aðgerðir stjórnvalda styrkja stöðu Grindavíkur.

Hann segir fólk líklegra til þess að fjárfesta aftur í Grindavík og koma til baka vegna þess að stjórnvöld komu svona snemma og myndarlega inn.

Þau svara óvissunni fljótt og gefa okkur þau skýru svör að þau muni grípa okkur. Það gerir það að verkum að meiri líkur eru á að ég treysti mér til að fjárfesta, og flytja aftur til Grindavíkur. Því að ef eitthvað gerist þá veit ég að stjórnvöld standa með fólkinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert