Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, segir ákvörðun Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra, um að fela óháðum aðila að fara yfir stjórnsýslu og lagaumgjörð hvalveiða, engu breyta um vantrauststillögu sem Inga hyggst leggja fram gegn Svandísi á Alþingi í dag.
„Ef einhver heldur að það breyti því að hún framdi lögbrot, það breytir engu í mínum huga,“ segir Inga og bætir við að henni finnist Svandís gefa umboðsmanni langt nef með því að óska eftir áliti annars um tillögur og úrbætur.
„Til hvers þarf hún að fá fleiri álit á hinu eða þessu. Umboðsmaður er okkar eftirlitsaðili og hans álit var skýrt. Það er enginn annar sem getur stigið inn í það.“
Inga segist ekkert hafa rætt við þingmenn stjórnarflokkanna um vantrauststillögu hennar og hugsanlegan stuðning þeirra við tillögunni. Hún áréttar þó að allir þingmenn hafa svarið drengskaparheit að stjórnarskránni, að fylgja gildandi lögum auk þess að vernda stjórnskipan landsins.
„Ég trúi því að það séu heilindi hjá flestum okkar að minnsta kosti,“ segir Inga og bætir við:
„Það kemur þá berlega í ljós núna, þegar við leggjum fram þessa vantrauststillögu sem byggir eingöngu á lögbroti ráðherra, hver raunverulegur standard er. Hvort þetta sé innantómt tóm, þegar við erum að sverja hitt og þetta. Merkingarlaust blaður það kemur berlega í ljós núna þegar atkvæði verða greidd með þessari vantrauststillögu.“
Inga ítrekar að vantrauststillagan snúist ekki um dýravelferð heldur um lögbrot ráðherrans. Lögbrot sem sé svo alvarlegt að það réttlæti ekki áframhaldandi setu Svandísar í stóli matvælaráðherra og því þurfi hún að stíga til hliðar, að sögn Ingu.
„Hún á ekki að vera ráðherra. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Svandís Svavarsdóttir gerist uppvís að því að ganga af léttúð um gildandi lög hér á landi.“
Inga segir ekki endalaust hægt að viðurkenna að ráðherrar gangi af léttúð um stjórnskipan landsins. Hún vísar meðal annars til þess að háskólaráðherra Noregs hafi sagt af sér í gær vegna ritstuldar í meistararitgerð sinni, en hér á Íslandi reyni allir að fela eigin ásýnd.
„Það er okkur í blóð borið að reyna að réttlæta okkur en í þessu tilviki er það ekkert hægt, þetta er óréttlætanlegt,“ segir hún.
Hvað vakir fyrir matvælaráðherra er Ingu jafnframt óskiljanlegt. Á þeim tveimur árum sem Svandís hefur verið matvælaráðherra segir Inga hana ekki hafa komið fram með nokkuð frumvarp þess efnis að banna hvalveiðar.
„Mér finnst tvískinnungur þarna bara algjör.“
Hins vegar kveðst Inga vera meðflutningsmaður á frumvarpi Andrésar Inga Jónssonar, þingmanni Pírata, um algjört bann á hvalveiðum, það sé Svandís ekki. Á sama hátt segir Inga Svandísi ekki stíga inn í blóðmeramál eða önnur dýravelferðarmál.
„Það eru við sem erum að verja dýravelferðina,“ segir Inga og á við að fjölmargir þingmenn stjórnarandstöðunnar séu að baki frumvarps um bann við hvalveiðum auk þess að berjast fyrir dýravernd.