Þjóðfundur, þjóðstjórn eða þverpólitísk nefnd?

Þingmenn viðruðu ólíkar hugmyndir um lausnir við vanda Grindvíkinga á …
Þingmenn viðruðu ólíkar hugmyndir um lausnir við vanda Grindvíkinga á Alþingi í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Alls tóku sautján þingmenn til máls á Alþingi í dag í framhaldi af munnlegri skýrslu forsætisráðherra vegna stöðunnar í Grindavík. 

Heyra mátti á flestum ef ekki öllum sem til máls tóku að þeir skynjuðu samstöðu í þinginu um að vinna saman að sem bestri lausn fyrir Grindvíkinga.

Ýmislegt mismunandi var þó lagt til í ræðum dagsins. 

Kristrún Frostadóttir.
Kristrún Frostadóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lagði til þverpólitíska þingmannanefnd

Fyrr í dag ræddu forystumenn ríkisstjórnarinnar við blaðamenn. Í umræðunni í þinginu tóku nokkrir þingmenn úr stjórnarandstöðunni til máls. 

„Ég tel einsýnt að hækka þurfi þau framlög sem hafa verið greidd vegna leigustuðnings til Grindvíkinga á meðan unnið er að næstu skrefum og ég bind vonir við að það verði gert hér á þinginu á næstu dögum,“ sagði Kristrún Frostadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar. 

Lagði hún jafnframt til að þverpólitísk þingmannanefnd, til undirbúnings laga við framkvæmd aðgerðanna, yrði skipuð. Sagðist hún telja að ekki væri vilji hjá ríkisstjórnarflokkunum til þess en það gæti breyst. [Kristrún tók fyrst til máls og var því að vísa í annað en umræðuna undir þessum lið.]

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þjóðfundur fyrir Grindvíkinga?

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir þingmaður Pírata sagði að Grindvíkingar þyrftu að geta komið undir sig fótunum má nýjum stað. 

„Það er mikils virði að forystufólk allra flokka hefur sameinast um að vinna saman að vandaðri útfærslu á því hvernig skera eigi Grindvíkinga úr snörunni, eins og Bryndís Gunnlaugsdóttur komst að orði á íbúafundi Grindvíkinga um daginn,“ sagði Þórhildur.

„Það er mikilvægt að það er full samstaða um að Grindvíkingar öðlist fjárhagslegt frelsi til að koma undir sig fótunum á nýjum stað, en það er líka mjög mikilvægt að það sé ekki aðeins samstaða hér á þessum stað heldur að Grindvíkingar allir fái að hafa eitthvað um útfærsluna og framkvæmdina að segja,“ bætti hún við og velti fyrir sér hvort þjóðfundarfyrirkomulag geti komið að gagni.

„Sjálfri þykir mér vænt um þjóðfundi og þjóðfundarfyrirkomulag og velti því upp hvort ekki mætti skipuleggja slíkan fund fyrir Grindvíkinga. Þannig gætum við öll unnið saman að lausn til framtíðar.“

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar. mbl.is/Árni Sæberg

Allir þingmenn þurfa að axla ábyrgð

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir þingmaður Viðreisnar segist sjá fyrir sér að einhvers konar þjóðstjórn sé að verða til vegna málsins. Þau í Viðreisn hafi talað fyrir þjóðstjórn í þessu máli.

Það sé að nást með þeim fundi sem formenn stjórnmálaflokkanna hafi átt í morgun með forsætisráðherra.

„Við í Viðreisn höfum talað um þjóðstjórn um þetta mikilvæga verkefni og ég vil í rauninni fagna því að það er að nást núna með þessum fundi sem við áttum í morgun. Ég vona að það verði þannig að ríkisstjórnin fari í það verkefni af heilum hug með okkur í stjórnarandstöðunni, því að það er okkar sameiginlega verkefni að skila verkefninu skýru og kláru og heilu til Grindvíkinga þannig að þeir geti unnið úr sínum viðfangsefnum.“

Þorgerður Katrín sagði einnig að málið yrði ekki mál einnar ríkisstjórnar heldur fleiri. Þingmenn þyrftu allir að axla ábyrgð á því sem gerist í framhaldinu. 

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ólík sjónarmið um markmiðið

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins sagði alla þingmenn vera með sama markmiðið óháð stjórnmálaflokkum, vegna stöðunnar í Grindavík, þótt fólk kunni að hafa ólíka sýn á leiðirnar að markmiðinu.

Leita þurfi að bestu lausninni og þar þurfi Grindvíkingar að vera með ráðum. 

Í þessu tilviki eru allir meira og minna á því að nú sé þetta bara spurning um að leita að bestu lausninni. Markmiðið er hið sama og ég efast ekki um að ef einhver heyrir af annarri og betri lausn en viðkomandi hafði haft í huga áður, þá muni sá hinn sami skipta um skoðun,“ sagði Sigmundur.

Ég er til í að skipta um skoðun þó að ég sé ekki búinn að fullmóta mína hugmynd að bestu lausn. En ég er sannarlega opinn fyrir hugmyndum hvaðan sem þær koma og auðvitað sérstaklega frá Grindvíkingum.

Ásthildur Lóa Þórsdóttir þingmaður Flokks fólksnis í Suðurkjördæmi.
Ásthildur Lóa Þórsdóttir þingmaður Flokks fólksnis í Suðurkjördæmi. mbl.is/Hákon

Ákvörðunin ekki Grindvíkinga sjálfra?

Ásthildur Lóa Þórsdóttir úr Flokki fólksins sagðist skilja þá afstöðu ríkisstjórnarinnar að það væri stór ákvörðun að ákveða að leggja niður heilt bæjarfélag með því að fara í uppkaup.

„En þá spyr ég: Er það í raun á borði ríkisstjórnarinnar að ákveða hvort það verði byggð í Grindavík áfram eða ekki? Er sú ákvörðun ekki Grindvíkinga sjálfra, ekki sem hóps heldur hvers og eins þeirra að taka ákvörðun um áframhaldandi búsetu sína í þessum fallega bæ?“ spurði Ásthildur.

„Ríkisstjórnin og við sem sitjum á Alþingi verðum að hafa vilja Grindvíkinga í huga og þá má ekki hugsa um þá bara sem einsleitan hóp heldur hóp einstaklinga og þar verður hver og einn að fá að ráða sínum málum eins og hverjum og einum hentar best.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert