Þórdís: Óvissan í fang ríkisins

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir fjármálaráðherra á fundinum.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir fjármálaráðherra á fundinum. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við ætlum að taka þá óvissu sem Grindvíkingar, nánast alveg eingöngu, hafa setið uppi með í fang okkar, það er að segja ríkissjóðs,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir fjármálaráðherra. 

Þetta kom fram á blaðamannafundi sem ríkisstjórnin hélt þar sem aðgerðir vegna Grindavíkur voru kynntar. 

Þórdís segir að með þessu geti íbúar ráðið örlögum sínum sjálfir og hafi burði til þess að fjárfesta á nýjum stað fyrir framtíðina. Ekki sé vitað hvort sé til millilangstíma, lengri tíma eða til frambúðar. 

„Það mun fara eftir því auðvitað hvernig staðan verður í Grindavík en líka eftir því hvað fólk ákveður sjálft. En jafnvel þótt að það verði orðið óhætt að flytja aftur til baka þá getur verið að einhver geri það ekki. En grundvallaratriðið er þetta; ríkið tekur óvissuna til okkar til þess að fólk geti ráðið örlögum sínum sjálft.“

Óvissan algjör

Þórdís segir enn fremur að í umræðunni hafi verið sú hugmynd, sem sé stór og einfaldari en aðrar leiðir, að kaupa upp íbúðarhúsnaði í eigu einstaklinga í Grindavík. „En við höfum líka heyrt raddir um að það sé of stórt skref á þessum tímapunkti þegar óvissan er algjör. Við getum ekki, eins og staðan er núna, tekið ákvörðun á einhverjum grunni sem vísindamenn láta okkur hafa þar sem það er hægt að segja þetta er dómur um Grindavík á þessum tímapunkti, vegna þess að óvissan er algjör,“ segir Þórdís. 

„Ef að við getum fundið leiðir þar sem við í rauninni frestum þessari stóru ákvörðun lokauppkaup eða uppgjör á fasteignum, einmitt út af þessari óvissu, þá myndi það hafa mildari áhrif gagnvart framtíðinni í Grindavík sem við heyrum mjög skýrt að ekki eru allir tilbúnir að gefa upp á bátinn.“

Vilja lágmarka höggið á ríkissjóð

Það muni skýrast þegar fram líði stundir. „Kannski hratt, kannski hægt, það getur einfaldlega enginn sagt okkur það.“

Þórdís segir að útfærslan þurfi að mátast við það hvernig hægt sé að lágmarka höggið á ríkissjóð með tilliti til þess að ná niður verðbólgu og vöxtum hér á landi. „Og það skiptir máli hvernig það er gert.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert