Vantrauststillaga Flokks fólksins, á hendur Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra, hefur nú verið afturkölluð.
Er þetta gert í kjölfar þess að Svandís tilkynnti um klukkan 15 í dag, þegar þing kom aftur saman, að hún hefði í morgun fengið staðfesta greiningu á brjóstakrabbameini. Af þeim sökum hygðist hún taka leyfi frá störfum.
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, brást við tíðindunum í samtali við mbl.is og kvað telja það líklegt að tillagan yrði dregin til baka.
„Það er enginn bragur á því að leggja fram vantraust á einstakling sem ekki er hér til þess að verja sig sjálfur,“ sagði Inga.
„Þetta eru sláandi fréttir og við sendum henni batakveðjur.“