Allir smákóngar heimsins koma og segja „ekki hjá mér, ekki hjá mér“

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftlagsráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftlagsráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftlagsráðherra, segir Íslendinga í miklum vandræðum þar sem ekkert hafi verið gert í 15 ár í raforkumálum og í 20 ár í hitaveitumálum.

Hann segir mikilvægt að þingið klári frumvarp sem liggi fyrir um hagnýtingu vindorku. Þetta var meðal þess sem kom fram í ræðu hans undir sérstakri umræðu um orkumál á þinginu í dag. Þá lýsti hann vonbrigðum með hvernig gengi með sameiningar stofnana og vísaði til þess að „smákóngar“ kæmu í veg fyrir slík áform.

Ingibjörg Isaksen, þingmaður Framsóknarflokksins, hóf umræðuna og fór yfir stöðuna í orkumálum sem hún sagði sorglega og að leggja þyrfti fram frumvarp til að tryggja heimilum og litlum og meðalstórum fyrirtækjum forgang á raforku og horfa á stærri fyrirtæki neyðast til að brenna olíu vegna skerðingar. Sagði hún að skerðingar kostuðu samfélagið milljarða og útséð væri að skerðingum myndi fjölga á næstu árum.

Þá gagnrýndi hún jafnframt að illa hefði gengið að koma upp betri raforkutengingum um landið og sagði að það sem hefði tekið áratugi hingað til þyrfti nú að taka mánuði og vísaði þar til þegar verið væri að meta vernd og nýtingu.

Spurði Ingibjörg jafnframt Guðlaug hversu mikla orku þyrfti að afla til framtíðar að mati ráðherra og hvort aðgerðaáætlun væri til staðar að afla þeirrar orku.

Að óbreyttu verði vandræði

Guðlaugur mætti í pontu og fór yfir þau atriði sem farið hefur verið í undanfarið í orkumálum. Nefndi hann meðal annars vinnu við grænbók þar sem niðurstaðan væri að það þyrfti tvöfalda orkuframleiðslu til að fara í orkuskiptin. Þá hafi einnig komið út skýrsla um hitaveitur sem ætti að opna augu manna. „Hvenær ætla menn að vakna við það að tveir þriðju hlutar hitaveitu á Íslandi eru í vandræðum?“ spurði Guðlaugur.

Sagði hann Íslendinga ekkert hafa gert í 15 ár í raforkumálum og 20 ár í hitaveitumálum, því séum við að lenda í vandræðum.

Fór hann yfir að til að auka framleiðslu þyrfti fernt til. Fyrst væri það leyfi til að nýta virkjunarkosti sem fáist með afgreiðslu rammaáætlunar, en rammaáætlun 3 var samþykkt í upphafi þessa kjörtímabils. Þá þyrftu orkufyrirtæki að fara í framkvæmdir. Í þriðja lagi þyrftu leyfisveitingaferli og opinberar stofnanir að vera skilvirk og í síðasta lagi þyrftu sveitarfélög að klára vinnu sem snýr að skipulagi og leyfisveitingum. Sagði Guðlaugur að atriði eitt og þrjú á þessum lista sneru að ríkisvaldinu og að unnið hafi verið samfleytt að þeim.

Smákóngar sem stöðva sameiningar

Gagnrýndi hann því næst stjórnarandstöðuna fyrir að hafa ekki greitt atkvæði með rammaáætluninni sem samþykkt var á kjörtímabilinu og benti á að enginn þar hefði viljað samþykkja áætlunina. „Með öðrum orðum, við ættum enga von ef þeir hefðu náð sínu fram,“ sagði Guðlaugur um stjórnarandstöðuþingmenn.

Sameining stofnana var Guðlaugi einnig ofarlega í huga, en hann hefur bæði talað fyrir slíku og ráðist í sameiningar í ráðherratíð sinni. Sagði hann að ekki myndi nást árangur nema með sameiningu stofnana og sakaði „smákónga“ um að koma í veg fyrir slík áform. „Það þýðir ekki að koma með skýrslu eftir skýrslu eftir skýrslu um mikilvægi þess að vera með stærri stofnanir og síðan koma allir smákóngar heimsins þegar á hólminn er komið og segja „ekki hjá mér, ekki hjá mér“ og ég vonast til að það verði ekki niðurstaðan núna,“ sagði hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka