Pétur Ágústsson, skipstjóri og athafnamaður í Stykkishólmi, lést á Landspítalanum við Hringbraut 14. janúar sl., 77 ára að aldri.
Pétur fæddist í Flatey á Breiðafirði 25. mars 1946 og var þriðja barn hjónanna Ágústar Péturssonar skipstjóra, f. 1906, d. 1979, og Ingveldar Stefánsdóttur húsmóður, f. 1917, d. 1985. Þau stofnuðu heimili í Flatey en bjuggu lengst af í Stykkishólmi. Systkini Péturs voru fimm.
Pétur kvæntist þann 20. júní 1970 Svanborgu Siggeirsdóttur, f. 18. september 1950. Pétur og Svanborg hafa alla tíð búið í Stykkishólmi, lengst af á Sundabakka 16 sem þau byggðu sjálf. Foreldrar Svanborgar voru hjónin Siggeir Pálsson og Una Kristín Georgsdóttir, bændur á Baugsstöðum í Stokkseyrarhreppi. Börn Péturs og Svanborgar eru: 1) Ágúst vélfræðingur, f. 25.12. 1970, búsettur í Mosfellsbæ. 2) Siggeir skipstjóri, f. 14.3. 1973, búsettur í Stykkishólmi. 3) Una Kristín lífeindafræðingur, f. 26.12. 1979, búsett á Akureyri. 4) Lára Hrönn, skipstjóri og tónlistarmaður, f. 11.9. 1981, búsett í Mosfellsbæ.
Pétur byrjaði að sækja sjó á barnsaldri og lauk farmannaprófi vorið 1968. Þegar Pétur var 19 ára hóf hann sinn skipstjórnarferil og var í því starfi nánast óslitið til vorsins 2016 eða í rúm 50 ár og því samtals á sjónum í rúm 60 ár.
Hjónin Pétur og Svanborg voru meðal stofnenda útgerðarfélagsins Hólms hf. 1972 og gerðu út Sif SH 3. Pétur var lengi á fiskibátum en árið 1986 stofnuðu þau hjónin, ásamt Eyþóri bróður Péturs, Eyjaferðir og hófu útgerð skemmtibáta. Félagið breyttist síðar í Sæferðir ehf. sem gerir út stóra farþegabáta og einnig ferjuna Baldur frá 2001. Þau Svanborg seldu sinn hlut í Sæferðum 2015.
Pétur sat í bæjarstjórn Stykkishólms í átta ár auk þess að gegna ýmsum öðrum félagsstörfum.
Pétur var sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu 2009 fyrir frumkvæði í ferðaþjónustu. Hann fékk heiðursorðu sjómannadagsins og þau hjónin fengu viðurkenninguna Höfðinginn: viðurkenningu í ferðaþjónustu á Vesturlandi. Pétur verður jarðsunginn frá Stykkishólmskirkju laugardaginn 10. febrúar nk. og hefst athöfnin kl. 14.