Andlát: Reynir Sveinsson

Reynir Sveinsson.
Reynir Sveinsson.

Reynir Sveinsson, fréttaritari Morgunblaðsins í Sandgerði, lést 21. janúar sl. á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja í Keflavík, 75 ára að aldri.

Reynir fæddist 2. júní 1948 í Sandgerði, þar sem hann bjó alla tíð. Foreldrar Reynis voru Sveinn Aðalsteinn Gíslason rafveitustjóri og Guðbjörg Hulda Guðmundsdóttir. Reynir var fjórði í röðinni í hópi sjö systkina.

Reynir lærði rafvirkjun hjá föður sínum og rak verkstæðið Rafverk ehf. í yfir 30 ár. Nærri aldamótum sneri hann sér svo að öðru og hóf þá störf hjá Sandgerðisbæ sem forstöðumaður Fræðaseturs í Sandgerði. Sú stofnun heitir nú Þekkingarsetur Suðurnesja. Þar starfaði Reynir lengi, aðallega við móttöku gesta og leiðsögn enda vel staðkunnugur á Reykjanesskaganum. Vann einnig með ýmsu móti að eflingu ferðaþjónustu í nærsamfélagi sínu. Reynir starfaði mikið og lengi að félagsmálum á Suðurnesjum. Hann sat fyrir Sjálfstæðisflokkinn í bæjarstjórn Sandgerðis í 20 ár og var í hafnarráði sveitarfélagsins í 16 ár. Gegndi jafnframt ýmsum trúnaðarstörfum öðrum á sameiginlegum vettvangi sveitarfélaga á Suðurnesjum.

Reynir var mjög virkur í björgunarsveitinni Sigurvon ásamt hörðum kjarna sem byggði björgunarmiðstöðina í Sandgerði. Þá var Reynir í Slökkviliði Sandgerðis í 40 ár og slökkviliðsstjóri í níu ár. Einnig var Reynir formaður sóknarnefndar í Sandgerði. Í krafti þess vann hann meðal annars að ýmsum endurbótum við Hvalsneskirkju, sem var honum afar hjartfólgin.

Eiginkona Reynis var Guðmundína Þorbjörg Kristjánsdóttir, f. 1956. Þau skildu. Börn þeirra eru Gísli, f. 1975, rútubílstjóri og útgefandi vefmiðilsins aflafrettir.is, Sigríður, f. 1980, leiðbeinandi og Guðbjörg, f. 1985, viðskiptafræðingur. Barnabörn Reynis eru 11 talsins.

Reynir var fréttaritari Morgunblaðsins í Sandgerði í þrjá áratugi. Var sömuleiðis öflugur sem ljósmyndari og skrásetti þannig sögu og mannlíf á svæðinu.

Við leiðarlok þakkar Morgunblaðið Reyni gott og farsælt samstarf og sendir fjölskyldu hans innilegar samúðarkveðjur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert